föstudagur, desember 13, 2002
|
Skrifa ummæli
Jæjjjjjjjjjjjjja

Hvað hefur eiginlega gerst? Ekkert blogg í marga marga marga daga. Best að gera heiðarlega tilraun til að bæta upp tapið.

4. des sofnaði ég ekki fyrr en klukkan var orðin rúmlega 2, 5. des.
5. des byrjaði með sviðsfundi klukkan 9:15. Þar lýsti ég skjálftavirkni síðastliðinnar viku í stuttu máli og myndum. Annars gerðist ekkert annað allan daginn og fram eftir kvöldi að ég sat og var að vinna, enda nóg að gera (eins og ég er vanur að segja).
Um nóttina (klukkan 04:35) var hringt í mig af veðurstofunni. Allt í veseni og var ég að redda málum í gegnum símann í 45 mínútur og á endanum tókst að laga vandann, en ég sofnaði ekkert aftur fyrr en klukkan var orðin 06:33 nákvæmlega, en í millitíðinni tók ég úr þvottavélinni og hengdi upp og fékk mér mjólkurglas og las smávegis í Onkel Joakim. Klukkan 9:30 um morguninn var hringt aftur og aftur var allt í skralli og gat ég nú sagt í mjög stuttu máli hvað ætti að gera, enda var ég nú að tala við mann af okkar sviði (þ.e. jarðeðlissviði, um nóttina var það tölvudeildin, sem vissi ekkert hvað átti að gera). En nú sá ég fram á það að ég fengi ekki neinn svefn úr þessu og fór því bara á fætur og dreif mig í vinnuna. Þennan dag var ég mjög þreyttur og í fúlu skapi og vilda bara hlusta á þungarokk. En ég settist niður og skrifaði leiðbeiningar til vaktafólksins um hvernig ætti að laga ýmsan vanda í sambandi við tölvur og vefmálavesen, teiknaði meiraðsegja mynd af öllum herbergunum og setti þar inn allar tölvurnar, með nöfnum og alles. Næst fór ég og tók mig út af símaskránni yfir fólk sem vaktafólkið hringir í og sendi svo öllum póst um í hverja ætti að hringja ef svona staða kæmi upp aftur (þ.e. ekki hringja í mig aftur, því ég er ekki á neinni helvítis bakvakt).
Svo fór ég bara heim og gerði ekki neitt.
6. des, var ég enn í frekar vondu skapi (ég get verið doldið lengi að ná svonalöguðu úr mér) og gerði eins lítið og ég gat þennan daginn og klukkan á slaginu 17:00 fór ég og fékk mér bjór með vinnufélögunum í Bjórvinafélagi Veðurstofu Íslands (MOBS) og sötraði þar til að klukkan var að ganga 10 (um kvöldið). Þá fór ég bara heim, en stoppaði stutt við því heima var ekkert að gera svo ég hringdi í Jóa og við tókum okkur Ice Age teiknimyndina á DVD og horfðum á hana heima hjá Jóa og eftir það fór ég aftur heim og þá bara til að sofa.
7. dec var alveg ágætur. Óopinber afmælisveisla Árna var haldin og horft og hlustað á margt gott og er greinilegt að hljómsveitin Del Credere rambar nú á barmi heimsfrægðar. Drukknir dularfullir drykkir a la Árni og einnig nokkrir jólabjórar og var svo skundað í bæinn, nánar tiltekið á Hverfisbarinn. Þar var margt um manninn að vanda og fengum við borð á besta stað uppi. Við hliðina á okkur var hópur af útlenskum DeCode starfmönnum sem ég ræddi við í nokkra stund og lýsti frati mínu á þetta fyrirtæki (og notfærði mér Jóa nokkuð í því ssambandi, en hann tók ekki eftir neinu, af einhverjum ókunnum sökum). Einnig hitti ég þar besta æskuvin minn hann Bjössa Knúts og ræddum við um gamla og góða daga (og eins og alltaf þegar maður hittir einhvern eftir langan tíma þá ákveðurm maður alltaf að hittast fljótlega aftur, en maður veit að það verður ekkert úr því). Svo sá ég á kvittuninni daginn eftir að ég hafði fengið mér eina pizzusneið eftir að hafa verið á Hverfisbarnum og vona ég bara að mér hafi þótt hún góð.
8. des. Helvíti á jörðu reyndist vera þennan daginn heima hjá mér. Jói kom í heimsókn seint um síðar meir og skutlaði mér í Fjörðinn til að sækja bílinn og háma í sig einhverju sóðalegu af Pylsubarnum í Hafnarfirði. Ekki var hægt annað í stöðunni en bara að bruna heim og halda áfram að dvelja í hreinsunareldinum heima hjá mér, enda var kvöldið áður greinilega allt of syndsamlegt.
9. dec tók ég frí í vinnunni og var bara duglegur að sinna mínum málum. Fékk mér Fjölskyldutryggingu, fór í bankann og breytti eyðsluþjónustunni, sótti buxurnar við jakkafötin sem ég keypti þann 7. des. Vaskaði upp (það var mikið, þar sem ég hafði ekki gert slíkt í u.þ.b. 2 vikur). Setti í þvottavélina og hengdi svo upp. Fór einnig í Teppaland og skoðaði parket og fékk bækling og blað um hinar ýmsu gerðir og verð og svoleiðis og svo sat ég bara um kvöldið í parketpælingum, en það mun kosta mig ekki nema rétt um 60.000 kall að setja parket á alla íbúðina. Í kvöldmatinn eldaði ég mér Rauðsprettu a la Hjölli, en hún var þannig matreidd að ég roðfletti flökin, setti þau í blöndu af eggjum og mjólk og kreysti svolítið af mandarínu út í, velti þeim svo upp úr blöndu af hveiti, salti og fiskikryddi og steikti þetta svo á pönnu og setti einnig mandarínubáta ofana flökin. Með þessu hafði ég svo bara franskar, sem ég hafði sett í ofninn svolítið áður svo þetta var tilbúið á sama tíma. Verð ég bara að segja að þetta var nú bara með betri Rauðsprettum sem ég hef smakkað, virkilega safarík og góð.
10. des. Aftur í vinnuna. Eftir fríið hafði að sjálfsögðu safnast upp heilmikið (þrátt fyrir að þetta var aðeins einn dagur). Gerði ekkert skemmtilegt. Fór heim seint, horfði á sjónvarpið og fór svo að sofa.
11.des. Dagurinn byrjaði með sviðsfundi klukkan 9:15 að venju. Eftir það var bara svona almennt bögg, en þó var þetta bara alveg ágætis vinnudagur. Fótboltinn um kvöldið var svo bara ágætur og svaf ég vel um nóttina.
12. des. Vaknaði seint og kom í vinnuna klukkan 10:03 og byrjaði á því að fá mér kaffi og rúnstykki með osti á. Eyddi svo mest öllum deginum í að undirbúa fyrirlestur og vesenast í hinu og þessu svona inn á milli (skrúa í sundur tölvu og passa upp á gagnastrauminn og það allt). Er nú búinn að vera að skrifa þetta blogg í um það bil 50 mínútur og er nú kominn 13. des.

Nú hætti ég að blogga að sinni, enda klukkan orðin margt og best að fara að sofa.

Hmmm...Allt í einu er www.blogger.com bara lokað og því kemur þetta blogg ekki fyrr en í fyrramálið, þ.e. núna þegar þetta er komið, eða þannig sko. En klukkan er hjá mér í þessu augnabliki 00:43 þann 13. des 2002.
    
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar