Snemmadagur í gær. Vaknaði klukkan 05:45 fór í sturtu og fékk mér staðgóðan morgunverð og skellti mér svo í vinnuna, sótti skjálftamælagræur og brunaði svo niður í Nauthólsvíkina. Þar var verið að undirbúa tökur á einni senu í myndinni "Lífið er of stutt" eða eitthvað svoleiðis og er þetta þýsk-íslensk vandamálafjölskyldudramasjónvarpsmynd um einhvern jarðfræðing og svo eru bara fullt af vandamálum. Mitt hlutverk var semsagt að redda skjálftamæli og benda þeim svona aðeins á hvernig ætti að bera sig að svo að þetta liti svona nokkurnvegin eðlilega út og held ég að það hafi bara gengið ágætlega, en þetta tók allan morguninn (frá ca 7-11:30) og senan var e.t.v. 1-2 mínútur.
Jæja nóg um það. Eftir hádegi tók ég mér frí og var bara frekar þreyttur eftir morguninn (gerði í rauninni ekkert annað en að bíða þarna úti í 4 tíma eftir því að þetta kláraðist) og lagði mig bara þegar ég kom heim, en skellti mér svo út í skákhúsið og fjárfesti í nýju skákborði og taflmönnum og var svo í aksjónleik með köllunum fram eftir kvöldi og er svona að pæla í að læra mannganginn.
|