Góðan daginn góðir lesendur og aðdáendur.
Í gær vann ég til fimm og fór þá í það að prenta út myndaseríur af Ægir litla fyrir Særúnu. Síðan fór ég upp í Sjónvarpsmiðstöðina og náði í ferðageislaspilara fyrir Baddí, en hún átti spilara sem eyðilagðist og var í ábyrgð (ég veit ekki af hverju ég er að segja ykkur frá því). Síðan skellti ég mér í ræktina og var á trimmtæki í 60 mínútur og tók einhverjar magaæfingar eftir það. Eftir það kom ég við hjá Hjöllanum og horfði þar á fræðsluþátt um British Museum, sem var alveg ágætur en aðeins of dramatískur. Þegar hann var búinn (og ég búinn að spæna í mig súkkulaðikexkökum) ákváðum við að fá okkur bíltúr, og byrjuðum að fara á Subway þar sem ég fékk mér kvöldmat (Subway Club í grófu brauði). Síðan fórum við upp í Bláfjöll og tókum rúmlega 100 myndir og vorum komnir heim rétt fyrir miðnætti.
Við Hjölli ræddum um það að það væri kannski sniðugt ef við strákarnir myndum skoða það, eftir nokkur ár, að kaupa okkur hús á Spáni (á einhverri fallegri strönd fjarri ferðamannaskaranum eða jafnvel á Mallorca). Það væri síðan hægt að semja við Íslenska ferðaskrifstofu um að leigja þetta út þegar einhver af okkur væri ekki að nota húsið, eins og margir Íslendingar gera. Jæja, þetta er bara svona hugmynd.
|