Nú er airwaves að byrja aftur - þrír dagar af tónlist. Reyndar er þetta nú ekki alveg eins spennandi og í fyrra að mínu mati. Reyndar er föstudagurinn mjög spennandi, að sjálfsögðu mun ég sjá Singapore Sling (að venju) og svo eru það Kills um kvöldið, hljómsveit sem ég sá á Roskilde og er spenntur að sjá aftur.
Annars er ég að vinna mig í gröfina þessa dagana, unnið er til 21-22 á hverju kvöldi, svo á morgun er ég að vinna til 18-19 og svo fer ég út um kvöldið og svo aftur á fös og aftur á lau. Já ég verð orðinn ansi þreyttur á sunnudag. Ekki batnar það í næstu viku - nú er rekstraráætlun að renna í garð og er það yfirleitt mikil kvöldvinna.
Er loks búinn að gefast upp á að gera við baðherbergið sjálfur - er búinn að fá aðila í þetta og ætlar hann að byrja á lau morgun. Já maður getur svo sem ekki allt, það eru nú bara svona margir tímar í sólarhring. En mér líður nú samt hálf asnalega, hálf aumingjalega að hafa ekki gert meira í þessu.
Enn og aftur kem ég að Sigga Pönk - hans skriftir fá mann til að hugsa mikið - hans sýn á hlutina er merkileg, eins "out there" og hann er þá er hann líka svo ótrúlega jarðbundinn og maður getur vel skilið margt af því sem fram kemur.
Ég hugsa oft um þetta blogg - hvort maður eigi að vera setja sínar hugsanir á netið. Stundum er maður persónulegur og stundum er þetta bara innantómt hjal. Ég hef alltaf talið að heilbrigð blanda af því sé góð, svo les maður bloggin frá öðrum og ósjálfrátt fer maður að bera sig saman við skriftina þar.
Ég var líka búinn að skrifa enn lengra blogg - en ákvað að stroka það út þar sem sumt á ekki heima hjá almenningi, eitthvað verður maður að skilja eftir í höfðinu.
Jæja svefninn kallar - þarf að vera mættur 8.00 í vinnuna. Ég er svo rútineraður að ég fer alltaf upp í rúm um miðnætti að sofa þar sem ég veit að ég þarf að vakna kl 7.00. Hins vegar er ég aldrei þreyttur, gæti vakað fram eftir og jafnvel minnkað svefnin niður í 4-5 tíma. Eitthvað sem ég hef alltaf hugsað um eftir að hafa lesið að Edison minnkaði svefninn niður í 3 klst eftir að hann hélt því fram að svefn væri vani. Ekki það að ég vilji meina það, en það er nú samt spurningin með svefn, hversu mikið þarf maður eiginlega..
|