Slembarar (-Pálmi) fórum fyrr í kvöld á rokkheimildamyndina "Achtung, wir kommen!". Þessi mynd á að lýsa 10 árum í austur-þýsku rokki frá falli múrsins, og er Rammstein nokkuð áberandi í þessari mynd. Það eru tvær konur sem gera þessa mynd og ég verð bara að segja að þær klúðruðu gjörsamlega ágætri hugmynd. Myndin inniheldur í raun ekkert merkilegt eða áhugavert myndbrot, og er í raun óskiljanlegt hvað þær fengu lélegar myndir frá þessum 10 árum. Myndin er gjörsamlega stefnulaus og þær hafa greinilega ekki haft hugmynd um það hvað þær ætluðu að fara með þessa mynd, eða hvað átti að taka á. Myndin líður áfram stefnulaust og maður varð alveg hissa á því hversu þetta var ómarkvist. Síðan komu inn í myndina fáránleg myndskot, sem áttu væntanlega að gefa myndinni listrænt gildi, sem var alveg að missa marks. T.d. voru þessar tvær ágætu konur oft svífandi í einhverjum undirgöngum og meira var af slíkri vitleysu. Eina sem í raun var skemmtilegt við myndina var að sjá Rammstein, því þeir eru alltaf traustir.
Myndin fær eina drulluköku af fimm mögulegum og fékkst hún aðeins fyrir það að Rammstein var í myndinni og rokkguðinn Óttar Proppe sat fyrir framan okkur (einn í bíó).
Annars er Sonja að vinna núna og ég er að laga til mynd (í Photoshop) af Særúnu og Ægir litla sem ég ætla að prenta út fyrir hana fyrir jólakort. Það breytir samt ekki því að það er fátt nördalegra en að blögga á laugardagsnótt.
|