Jæja, allt of langt síðan eitthvað hefur verið sett hér niður á skjá, annaðhvort er allt að gerast eða bara dauði og djö.
Á sunnudeginum fór ég í mína 4. köfun og byrjuðum við á að kíkja á straumsvíkina, en það var skip í höfninni og frekar mikil fjara og öldugangurinn svona í það mesta svo við brunuðum bara upp á Kleyfarvatn. Veðrið á var alveg súper gott og vatnið spegilslétt. Þar sem að Thelma (hinn nemandinn) var einni köfun á eftir mér þá fór hún í fyrri köfunina með Héðni (kennara) og Bjarna Þór (kláraði fyrir um ári síðan). Þetta tók uþb klukkutíma og á meðan vappaði ég bara þarna um og tók myndir og horfði líka doldið út í loftið og boraði í nefið.
En svo var komið að mér. Eftir að við vorum komin út í þá ákvað Thelma að hætta við þar sem að henni leið ekki mjög vel og fór hún því uppúr og Bjarni fór með henni. Ég gerði svo þær æfingar sem eftir voru (taka gleraugum af mér í kafi og setja þau aftur á, kafa eftir áttavita, smá flotjafnvægisæfing og að lokum að fara úr vestinu og aftur í það á yfirborðinu). Þar með eru allar æfingar búnar sem þarf til að öðlast Open Water PADI köfunarréttindi niður á 18 m.
Nú var búið að gera við gallann minn, en ástæðan fyrir því að ég blotnaði alltaf svona mikið var sú að einn saumur í hálsmálinu var orðin lélegur og fossaði vatnið þar niður, en nú var ég alveg þurr og var þetta allt annað líf. Af þessum sökum þurfti ég því meira af blýi, en venjulega var ég með 13 Kg + fullt af vatni inn í búningnum, en nú var ég þurr og með 15 kg af blýi.
Annars er ekki mikið að sjá í Kleyfarvatni. Botninn er bara sandur lengst út og með lágvaxinni gróðurþekju yfir. Einnig var ég svolítið hissa á hve það var grunnt þarna út af höfðanum, en dýpið var aðeins rétt um 5-6 m og dýpkaði mjög hægt. Ég var eitthvað að reyna að leita eftir spúnum, en botninn er svo mjúkur að ef það lendir eitthvað á botninum þá hverfur það bara niður í drulluna. Að vísu fundum við eina gamla dós og á henni stóð Mexíkó 86, svo það er greinilegt að það sekkur ekki allt niður.
En svona heildina á litið þá var þetta skemmtilegasta köfunin, þar sem að ég var alveg þurr og munar það nú bara töluvert miklu upp á hvað það er svo mikið hlýrra að kafa og maður nýtur þess mun betur og öryggistilfiningin er mun meiri.
|