laugardagur, febrúar 07, 2004
|
Skrifa ummæli
Þorrablótsferðalag

Keyrði norður í land í gær. Lagði af stað klukkan 11:12 frá Freyjugötunni og var kominn á Krókinn klukkan 16:15. Var semsagt ekkert að flýta mér, enda fljúgandi hálka alla leiðina, en færið samt mjög gott og veðrið alveg frábært. Fór í smá heimsókn í FNV og hitti þar nokkra kennara, þrátt fyrir að komin væri helgi þá var fólk enn að vinna, enda hætta kennarar aldrei að vinna. Hitti svo BjaKK í nýju fiskarannsóknaraðstöðunni út á eyri. þetta er bara ofsa fínt, en lítið komið inn í húsið annað en nokkur veggspjöld og í kjallaranum eru nokkrar fötur með seiðum í.

Eftir þessa skoðunarferð þá fórum við í KS og keyptum í matinn, en til stóð að elda pizzu um kvöldið. BjaKK (og fleiri) fóru svo í leikfimi klukkan 18:00, en ég keyrði heim að Hólum með matinn. Til stóð að elda þegar leikfimisfólkið væri komið heim og var áætlaður tími klukkan 20:30.

Þegar ég var á leiðinni var rétt að byrja að snjóa smávegis, en ekkert sem olli neinum vandræðum. Ég kom mér svo bara fyrir heima hjá BjaKK og setti Spaceballs í DVD tækið og fékk mér bjór. Klukkan 20:30 var myndin búin, en ekkert bólaði á leikfimisfélögunum. Ég setti því næst Simpsons disk í tækið. Þegar ég var búinn með tvo Simpson þætti af disknum (klukkan orðin 21:20) kom stelpan af neðri hæðinni til að láta mig vita að því að þau hefðu farið útaf á leiðinni, en voru kominn í annan bíl og það ætti að vera svona ca 20 mínútur í þau. Svo fór hún og ég hélt áfram að horfa á Simpsons. 20 mínútur liðu en enginn kom. Aðrar 20 mínútur liðu og enginn kom. En þegar klukkan var að verða hálf ellefu þá og Simpson diskurinn búinn þá kom hersingin loksins. Veðrið var bara orðið svo brjálað að það sást ekki neitt í bókstaflegri merkingu og allt orðið ófært. Broddi var orðinn kaldur enda þurfti hann að vera með hausinn út um gluggann á bílnum á leiðinni því bílstjórinn sá ekki neitt.

Eftir að Broddi var búinn í sturtu og fá smá hita í sig og opna einn bjór þá tók hann til við að elda. Á miðnætti sátum við svo og borðuðum þessa líka fínu pizzu, en það var nú ekki nóg og eftir þessa pizzu þá gerði hann aðra, en nú var klukkan orðin 1. Við átum nú næstu pizzu líka, fengum okkur meiri bjór og horfðum á Cat Ballou.

BjaKK er nú í björgunarleiðangri (að bjarga bílnum sínum sem fór útaf), en ég og Broddi ætlum svo á eftir að skjótast á krókinn (þegar það verður orðið fært, en það er allt ófært ennþá samkvæmt vegagerðisvefnum) og sækja þorrabakkann fyrir þorrablótið og kaupa meiri bjór, en eftir svaðilfarir gærkvöldsins þá gekk aðeins á bjórlagerinn.
    
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar