Helgin
Helgin var mjög fín hjá okkur Sonju og hérna ætla ég að stikla á stóru um það hvað var gert:
Föstudagur:
Hætti í vinnunni upp úr hádegi og við fórum í Bónus og keyptum nesti fyrir ferðina og fórum síðan heim og hentum dótinu í bílinn. Við lögðum síðan af stað um 16 leitið og tókum okkur góðan tíma í að keyra til Skaftafells (tókum myndir og fengum okkur að borða) enda vorum við ekki komin fyrr en kl. 23 um kvöldið ef ég man rétt. Við tjölduðum og fórum snemma að sofa.
Laugardagur:
Vöknuðum kl. 8 og brunuðum á Núpstað en þar fer rútan í Núpsstaðarskóg. Við skoðuðum fyrst aðeins bæinn og um kl. 9 var lagt af stað, en við Sonja vorum bara tvö í þessari ferð og fannst Höskuldi það greinilega ekkert mál. Það var notast við stóra rútu frá 1950 og þurftum við að keyra yfir stóra á og því er þessi leið bara jeppafær (og rútufær). Fyrst var keyrt í c.a. klukkustund og þaðan var gengið í Núpsstaðarskóg. Ég held að í heildina hafi gangan verið í 6 tíma eða svo og síðan var ekið til baka. Við vorum því ekki komin til baka fyrr en kl. 18 og Höskuldur var með okkur allan tímann, þ.e. gekk með okkur og sýndi okkur staðinn. Þetta var mjög skemmtileg ferð og við þurftum m.a. að príla upp járnkeðju c.a. 8-10 metra til að komast að fossunum tveimur, en annar þeirra er með fersku fjallavatni en hinn með jökulvatni og hylurinn undir þeim er því tvílitur. Mér finnst Hannes leiðsögumaður ótrúlega fórnfús að fara þessa ferð með okkur því tímakaupið hefur verið ansi lágt hjá honum í þessari ferð en hann hefur greinilega mjög gaman af því að sýna þetta svæði enda er þetta í hans eigu. Gönguskórnir virkuðu mjög vel og ég fann ekki fyrir því að labba þetta lengi í þeim og fékk ekkert hælsæri eða blöðrur.
Eftir þetta ferðalag fórum við í sund og enduðum síðan daginn á því að grilla og heppnaðist það með afbrigðum vel og hef ég ekki smakkað svona gott kjöt lengi.
Sunnudagur:
Vöknuðum kl. 10 og fórum í ferð á Ingólfshöfða. Farið er yfir sandana á vagni aftan á dráttarvél og er nokkuðmagnað að sjá landslagið þarna. Á kafla er farið yfir sjóinn á stóru svæði sem er c.a. 20 cm á dýpt og er eins og maður sé að keyra á á miðjum rúmsjó. Síðan er farið yfir mikla sanda og á tímabili sást aðeins sléttir svartir sandar í allar áttir og ekkert annað (var reyndar smá rok og því var smá sandfok og því ekki mikið skyggni). Síðan var tekinn göngutúr um höfðann og teknar margar flottar myndir af fuglalífinu þarna. Þessi ferð tók í heildina um 4 klst.
Við brunuðum síðan austur í Jökulsárlón og fengum við okkur þar fiskisúpu og síðan í siglingu.
Eftir þetta tókum við saman tjaldið og ég lagði af stað heim um kl. 19 og Sonja fór að vinna.
Myndirnar sem við tókum í ferðinni eru víst á tölvunni hennar Sonju í Skaftafelli og því koma þær bara síðar.
|
Já maður á alveg eftir að fara þetta, en ég gekk einu sinni upp á Kristínartinda (minnir að þeir heiti það) þarna fyrir ofan Skaftafell og var það alveg frábær göngutúr og útsýnið þarna uppi var alveg frábært, enda var sól og logn þarna efst uppi.
16:32 Hjörleifur
Tja - Höskuldur eða Hannes, það skiptir ekki öllu máli ;)
22:12 Sonja
|
|