mánudagur, júlí 26, 2004
|
Skrifa ummæli
Hjólasunnudagurinn ógurlegi (sönn saga)
I.

Það er nú það, hvar er best að byrja. Ég byrja bara á Laugardeginum.

Laugardagurinn var tiltektardagur. Ég fór meir að segja í sorpu með gömlu tölvuna, sem var margsundurrifin og margsettsaman aftur, en gat nú ekki meir. Svo skipti ég um dekk á hjólinu og tók nagladekkin undan og setti sumardekkin á. Miklu betra að hjóla svona án nagglanna. Skrapp svo suður í Hafnarfjörð í heimsókn til mömmu og pabba og gróf þar 2 holur í garðinn, borðaði kvöldmat og horfði smá á sjónvarpið, en fór svo heim þegar "Dead poets society" byrjaði í sjónvarpinu, enda séð hana sennilegast þrisvar áður.

Þegar ég kom heim, hringdi ég í Jóa. Spurði hann hvort hann vildi koma í hjólatúr í nótt. Hann var doldið hissa, en ég sagði honum að á nóttunni væri alltaf besta veðrið og næstum enginn á ferli og því í raun lang besti tíminn til að fara út að hjóla. Svona reyndi ég að sannfæra hann í smá stund, en hann sagði bara: "Ég kem bara næst". En þetta segja menn bara sem vita ekki hverju þeir eru að missa af.

Eftir að hafa horft á sjónvarpið fram yfir miðnætti, fór ég að gá til veðurs, en fannst það vera svolítið þungbúið og svo var farið að dimma svolítið. Ég ákvað því að bíða aðeins lengur. Kveikti því á tölvunni og fór í "Max Payne". Það gekk svo vel í leiknum að ég tók ekkert eftir því hvernig tímanum leið, en skyndilega var klukkan orðin 5 um nóttina.

Ég stóð þá upp frá tölvunni, slökkt' á'enni og leit út um gluggan. Það var komið þetta fína veður og orðið bjart og gott. Ég dreif mig því út á hjólið og brunaði af stað eitthvert út í buskann, því ég var ekki enn búinn að ákveða hvert ég ætlaði.

II.

Ég tók stefnuna niður að sjó, en þar er alltaf gott að byrja. Hugsaði svo með mér í smá stund hvort ég ætti að fara Seltjarnarneshring eða skreppa niður í Elliðaárdalinn. Elliðaárdalurinn varð fyrir valinu. Það voru fáir á ferli og skemmtileg þögn í bænum, heyrðist meiraðsegja fuglasöngur og svo var einn og einn leigubíll á ferli.

Eftir smá túr innan um fuglasöng í Elliðaárdalnum, ákvað ég að skreppa aðeins lengra og hjólaði upp í Árbæ. Sama sagan þar, enginn á ferli og dettur manni helst í hug sagan af honum Palla sem var einn í heiminum. En það var smá lífsmark þarna, ég kom auga á eina þreytta konu sem var að loka hurðinni út í garðinn, ætli það hafi ekki verið svaka veisla þarna, eða ég held það að minnsta kosti.

Úr því að ég var nú kominn alla þessa leið og var enn í góðu hjólastuði ákvað ég að skreppa upp á Grafarholtið. Ég kom fyrst við á Essó stöðinni og fékk mér samloku og orkudrykk áður en ég hélt af stað. Í Grafarholtinu var sama sagan, alger þögn og dalalæðan skreið yfir holtið og gaf öllu þarna dularfullan blæ, eins og það væri einhver galdrakall sem gengi um svæðið og þokan umvafði hann og gerð'ann ósýnilegan. Þarna efst upp á holtinu naut ég útsýnisins í smá stund og kom þá auga á veg, meðfram stóru vatnslögninni og lá upp í óbyggt holtið. Ég hugsaði mig ekki lengi um og tók stefnuna á veginn. Neðst í brekkunni sat rjúpa, sem flaug af stað þegar ég nálgaðist, ekki oft sem maður sér rjúpur í Reykjavík. Þetta var mjög brött brekka og varð ég að kasta mæðinni í miðri brekku og fá mér sopa af orkudrykknum áður en ég hélt áfram. En þetta hófst og þarna efst uppi sá ekki fyrir endann á veginum heldur hvarf hann bara inn í þokuna. Ég var ekki búinn að hjóla langt, þegar ég kom auga á hliðarveg og sá ég þar stutt frá byggingarkrana. Best að skoða það aðeins betur og í rauninni var ég eiginlega að vona að þessi vegur lægi aftur að byggðinni, því nú var þetta farið að verða gott og tími til að fara að huga að heimför. Þessi vegur lá að kaldavatnsbrunni og var verið að byggja þarna stöðvarhús, eða eittthvað slíkt. En hann hélt áfram og eftir smá stund var ég kominn á æfingasvæði skotfélagsins. Ég hjólaði því í gegnum svæðið, enda sá ég á skiltinu að það voru aðeins æfingar þarna milli 19 og 22 virka daga svo mér var óhætt að fara í gegn núna, enda klukkan aðeins rétt um hálf 7. Þegar ég var kominn í gegnum svæðið, fór vegurinn að versna töluvert. Eiginlega var þetta ekki neinn vegur lengur, heldur bara gamall, stórgrýttur slóði. Ég hugsaði mig aðeins um, en lét svo vaða þarna niður stórgrýtta brekkuna. Alltaf gaman að fara í svolitlar torfærur og taka smá áættu. Þarna stökk ég á milli steina á fleygiferð og var í góðu stuði og þá skyndilega sprakk afturdekkið. Á augabragði var það orðið algjörlega flatt. Hér var ég staddur einhverstaðar í langtíburtistan, orðin doldið þreyttur og með sprungið dekk.

III.

Ég bölvaði mér í smá stund að hafa gert þetta og ekki með neinar hjólabætur á mér eða varaslöngu, eða nokkurn skapaðan hlut, en ég hefði nú átt að vera búinn að læra af reynslunni, þegar dekkið sprakk á bak við Helgafell. Þetta var nú ekki alveg jafn slæmt, en samt svekkjandi.

Ég tölti því af stað með hjólið og eftir nokkrar mínútur var ég kominn inn í íbúðabyggðina þaðan sem ég fór úr henni. Þegar ég var kominn á gott malbik, lét ég mig renna rólega niður götuna til að flýta fyrir. Labbaði svo méð hjólið upp á höfða og inn á Skeljungs bensínstöðina (bensínstöðin sem er fjær, þegar maður er á leiðinni út úr bænum). Klukkan var nú rétt rúmlega 7.

Eftir smá leit að bótum fundust nokkrar pakkningar. Ég keypti einn poka og hófst nú viðgerðin.

Eftir að hafa kippt dekkinu af og slöngunni úr dekkinu, dældi ég smá lofti í slönguna til að sjá hvort ég sæi ekki gatið. Jújú það fór ekki á milli mála, ca 3 mm rifa á slöngunni. Ég kíkti á leiðbeiningarnar með bótunum, tók upp meðfylgjandi sandpappír og pússaði dekkið í kringum gatið, þ.e. á allt það svæði sem bótin límist svo á. Í pakkanum voru sex bætur, ágætt að eiga smá vara þegar þetta gerist næst. Fyrsta bótin skemmdist þegar ég var að taka hana af bréfinu, en jæja, 5 bætur eftir, það ætti að duga fyrir eitt gat. Bótin komin á og nú þurfti bara að bíða í 5 mínútur eftir að límið væri að þorna og þá var hægt að dæla lofti aftur í dekkið. Þegar ég var að setja loft í dekkið heyrði ég enn lekahljóð úr dekkinu. Hmmm... annað gat. Jú beint á móti fyrra gatinu var annað gat, alveg eins. Grjótið hafði greinilega farið í gegnum dekkið og slönguna líka. Jæja, þetta var ekki flókið, bara að bæta þetta gat líka. Pússa, líma, bíða. Þegar ég var að dæla loftinu í eftir seinni viðgerðina, heyrði ég enn eitthvert lekahljóð. Það fór ekki á milli mála að 3. gatið var á dekkinu og fann ég það fljótlega. Oggulítið gat, en nóg samt til að það lak töluvert enn.. Þegar það gat var bætt og ég var að dæla lofti í heyrði ég enn lekahljóð. 4. gatið var staðreynd. Þetta ætlaði ekki að ganga alveg eins og í sögu, en var það nú samt. Ég skellti bót á 4 gatið og á meðan ég beið eftir líminu, fékk ég mér smá morgunmat og skoðaði í hillur. Jæja, best að halda þessu áfram og nú voru tilskyldar 5 mínútur liðnar og dældi ég lofti í dekkið. Enn heyrðist lítið hviss úr dekkinu og 5. gatið reyndist vera þarna líka. Ég var nú farinn að verða svolítið þreyttur á þessum eylífu götum út um allt dekk, en við þessu var aðeins eitt að gera og það var að bæta gatið. Eftir að 5. gatið var bætt og var ég viss um að ég væri staddur í "The Twilight Zone" . 6. gatið kom í ljós og nú var mér alveg hætt að lítast á blikuna. Klukkan orðin hálf 10 og ég enn hér á bensínstöðinni, búinn að bæta 5 göt og búinn með allar bæturnar. Ég hefði átt að passa 1. bótina aðeins betur. En við þessu var ekkert hægt að gera annað en að kaupa nýan pakka af bótum og gera við síðasta gatið, sem vonandi var þá síðasta gatið. Á meðan ég beið eftir líminu, keypti ég mér kaffi. 6. gatið bætt og ég dældi lofti í slönguna. Enn heyrðist hviss úr slöngunni. Nú var mér nóg boðið. Ekki var það 7. gatið, heldur voru bæturnar farnar að leka og láku nú á þrem stöðum. Gaaaarg, ætlar þetta engan endi að taka. Ég fór því inn í bensínstöðina aftur og keypti "Tvöfalt Grettistak". Átti að líma allt og þar á meðal gúmmí (það fellur greinilega undir flokkinn "allt"). Ég sullaði því slatta af lími á bæturnar og reyndi að halda þessu saman og var nú búinn að sulla lími út um alla slöngu og farinn að festa olíusvörtu puttana mína á slöngunni og í öllu sem ég snerti í rauninni. Og þegar ég sat þarna með hjólið í bútum, með drulluga putta fasta á slöngunni og farinn að verða frekar pirraður á þessu ástandi, þá hringdi síminn.

IV.

Veðurstofan kallar. Prentari sem vill ekki prenta og ég þarf að koma og laga málið, en ég var jú á bakvaktinni núna. Límið virtist halda bótunum niðri og ég dældi lofti í slönguna og heyrði ekkert lekahljóð. Jibbí, loksins komið í lag. Ég skellti hjólinu saman og brunaði af stað. Þegar ég var kominn í gegnum Elliðaárdalinn tók ég eftir því að dekkið var farið að verða grunsamlega lint. Og þegar ég var kominn um hálfa leið upp Bústaðaveginn, var eiginlega allt loft komið úr dekkinu. Og eftir smá spöl í viðbót, var það orðið gjörsamlega flatt. Jæja, það var þó ekki langt í næstu bensínstöð og teymdi hjólið á Essó stöðina rétt hjá útvarpshúsinu. Þar dældi ég í dekkið og brunaði svo af stað og dugði þetta til að koma mér næstum því alveg að veðurstofunni, en dekkið var orðið alveg flatt þegar ég kom þangað kófsveittur og með blöndu af olíu og tvöföldu grettistaki á höndunum og var að fara að pikka á tölvu. Eftir snöggan handþvott hófst ég handa og tók þetta ca 10 mínútur að kippa þessum prentaramálum lag, a.m.k. virtist allt vera í lagi. Ég spjallaði svo í dágóða stund við Elínu og Garðar upp á spádeild og horfðum við á "heimsmeistaramótið í 9 ball 2003" á Skjá 1 fram að fromúlúnni, en þá var skipt um stöð. Formúlan byrjaði brösulega, en eftir að allir voru komnir af stað og Shumacher var fremstur gat þetta nú ekki orðið spennandi og ég undirbjó ferðina heim, með því að dæla smá lofti í dekkið og hélt af stað heim á leið. Ég komst næstum því niður að næstu bensínstöð (í Skógarhlíðinni), en þá var orðið flatt aftur og dældi ég smá í viðbót og komst næstum því alla leið heim, teymdi hjólið síðasta spölinn, lagði því fyrir utan, gekk inn, fór í sturtu og lagðist svo upp í rúm, leit á klukkana, 13:01 og steinsofnaði.

V.

Ta dadda radda da damm

Ta radda dadda da ramm

Da radda radda da damm

Da radda dadda da ramm

Opnaði augun og leit á klukkuna, 16:23. Veðurstofuhringingin í símanum, ég varð að skríða á fætur og svara þessu, ég var jú enn á bakvaktinni. Prentarinn var aftur bilaður. Það tók aðeins meiri tíma að laga þessa bilun í þetta sinn, en hófst fyrir rest. Þegar ég var þarna upp á 3. hæðinni kom Rikki inn og lét mig vita að ljósin væru á bílnum. Þar sem að ég var nú rétt að verða búinn að þessu, þá ákvað ég að bíða aðeins með að slökkva þau og klára bara það sem ég var að gera, en svo bættist smá við og smávegis eftir það. Þegar ég svo loksins var sestur inn í bílinn og ætlaði að starta honum, gerðist nákvæmlega ekkert annað en að lykillinn snérist í svissinum. Jæja, ég var nú ekki í svo slæmum málum, því Friðjón var með ferðaaflgjafa og gat gefið mér start úr honum, helvíti sniðugt tæki. Ég komst svo klakklaust heim, en lagði samt bílnum í brekku svo að ég get látið hann renna í gang, betra að vera viss, þó að maður hafi verið alveg viss um að hafa slökkt ljósin, maður veit aldrei hvað getur gerst.

VI.

Eldaði mér svínagúllas og sauð með því hrísgrjón í kvöldmatinn. Einfalt og þægilegt, bara steikja bitana á pönnu og hella einni krukku af indverskri sósu yfir og láta það krauma í nokkrar mínútur. Eftir matinn hringdi Jói. Spurði mig hvort ég vildi kíkja á leik í kvöld, Man Utd. - B. Munchen. Ég var vel til í það og kom hann að vörmu og brunuðum við á Players. Á leiðinn sagði ég honum sólarsöguna og var hann bara feginn að hann ákvað bara að "koma með næst" þegar ég ætlaði út að hjóla svona um miðjar nætur. Það voru ekkert of mörg sæti laus, en við komum okkur fyrir við hliðiná manni sem sat einn og sötraði bjór, en hin tvö sætin voru laus.

Leikurinn var ný byrjaður. Á sama tíma var úrslitaleikurinn í S-Ameríku bikarnum, Argentína - Braselía. Það væri nú ágætt ef Argentínu tækist að sigra Brassana, þeir eru búnir að vera meistarar svo oft og svo var nú Maradonna líka frá Argentínu og því best að halda aðeins meira með þeim.

Ekki var nú mikið að gerast í Man. Utd. leiknum og eftir að við höfðum setið þarna í smá stund, slökknaði á leiknum. Tæknin eitthvað að stríða þeim á Players. Það gerði nú ekki mikið til, þar sem að leikurinn var með eindæmum leiðinlegur. Maður horfði þá bara á hinn leikinn í staðinn. Argentína virtist vera betri aðilinn og átti ágætis takta og komst yfir með vítaspyrnu, en Brassarnir jöfnuðu. Jæja, hinn leikurinn var kominn í lag og horfðum við á hann þangað til að það slökknaði á honum aftur og ekkert hafði gerst í leiknum annað en að leikmennirnir spörkuðu boltanum sín á milli lengst frá mörkum hvors annars. En hann komst nú í lag aftur og horfðum við á hann til loka og gerðist nákvæmlega ekkert meira í þessum leik. Þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af Argentínu - Braselíu leiknum skoraði Argentína. Það kom ekki beint á óvart því þeir voru búnir að vera mun betri í seinni hálfleik heldur en Brassarnir og lágu í sókn allan seinni hálfleikinn. Þegar komið var um einni og hálfri mínútu fram yfir þessar venjulegu 90 mínútur sem leikurinn á að taka, sagði ég svona við Jóa: "Alveg væri það dæmigert fyrir Brassana að skora núna" og Jói svaraði: "Hvers vegna" og ég svaraði til baka: "Æi, bara Braselía er svoleiðis". Um leið og við sleppum orðinu skora þeir og staðan var nú 2-2 og leikurinn var flautaður af um leið.

Allt varð vitlaust á leiknum og var óeirðalögreglan komin í málið til að aðskilja leikmenn og dómara og ýmsa aðra aðila sem voru komnir út á völlinn. Sennilegast er þetta eitthvað sem gerist reglulega á leikjum í S-Ameríku, því það virtist svo enginn kippa sér neitt upp við þetta og nokkrum mínútum síðar hófst vítaspyrnukeppni. Keppnin varð ekki mjög spennandi, þar sem að Argentína klúðraði fyrstu tveim vítunum, en Brassarnir skoruðu úr öllum sínum og urðu þar með S-Ameríkumeistarar. Enn ein útgáfa af því hvernig á að stela sigrum. Það ætlaði ekki margt að fara vel í dag, en dagurinn var nú ekki alveg búinn.

Við vorum ekki komnir langt frá Players, þegar við keyrðum fram hjá manninum sem sat við hliðiná okkur. Löggan var búin að stoppa hann og hann fékk sér bara einn bjór. Álögunum hafði verið létt af mér og greyið maðurinn átti nú örugglega ekki góðan sólarhring fyrir höndum.

Ég sofnaði svo eins og steinn þegar ég kom heim og svaf ljúfum svefni alla nótina.

    
Þetta er nú meiri vitleysan.
21:38   Blogger Árni Hr. 
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar