Ég spratt upp eins og stálfjöður klukkan hálf níu um morguninn og fékk mér staðgóðan morgunverð. Á meðan ég var að borða hringdi Héðinn í mig til að láta mig vita af því að við ætluðum að hittast klukkan hálf tíu í stað tíu eins og planið var. Ég kláraði því morgunmatinn og fór út í bíl og hélt suður í fjörð. Kom við í hraðbanka og tók út 15 þús kall sem ég skuldaði Héðni (var að klára að borga búninginn, en ég lét breyta búningnum aðeins fyrir mig og það kostaði 15 þús kall).
Þessi köfun var jafnframt síðasta köfun Jóns Ingvars í námskeiðinu og jafnframt voru nokkrir Rússar með í för. Þetta var hópur frá köfunarfélagi í Moskvu og var búinn að vera hér á landi í 2 vikur og var þetta næstsíðasti dagurinn þeirra á Íslandi.
Nú var haldið af stað í sól og blíðu vestur eftir öllum reykjanesskaganum, alveg suður í Garð. Þegar þegar við nálguðumst Garðinn var þoka að nálgast landið og þegar við stigum út úr bílunum á bryggjubrúninni, var þokan allsráðandi og sást ekki nokkur vottur af sólinni lengur. Við þetta hafði hitinn greinilega hrapað niður og var nú ekkert svakalega hlýtt að standa þarna á stuttbuxunum og bol. Við drifum okkur því í gallana og hoppuðum fram af bryggjunni út í sléttan sjóinn.
Það var sama sagan með þennan stað og Óttarstaði daginn áður. Þarna var allt fullt af þessum glæru hlaupkenndu dýrum. Við létum okkur sökkva niður og við botninn (um 10 m dýpi) var lítið sem ekkert af þeim.
Á þessum stað voru fiskarnir ekki eins margir og við Óttarstaði, en þeir fiskar sem voru þarna voru aftur á móti stærri. Við komum auga á einn steinbít og var hann örugglega yfir hálfur metri á lengd og lá á botninum hreyfingarlaus, en við hættum okkur ekkert of nálægt honum, enda ekkert grín að fá glefsu frá þessu dýri í sig. Þarna voru líka nokkrir kolar og tókst Héðni að krækja í sporðin á einum sem gerði frekar mátlausar tilraunir til að sleppa. Héðinn beindi honum svo að mér og sleppti og synti hann þá til mín og ég greip um sporðinn á honum og beindi honum til baka og sleppti og synti hann þá aftur til Héðins, og settist bara á botninn og var bara alveg sama um okkur. Við veiddum okkur því ekkert í svanginn, en það hafa greinilega aðrir reynt, því á botninum var allt fullt af spúnum. Héðinn týndi þá upp sem hann rakst á og setur hann þá í krukku og safnar þeim bara.
Þessi köfun tók um 40 mínútur og verður að segjast að hún var ekki síðri en kafanirnar daginn áður.
Rússarnir voru um klukkutíma í kafi og fullnýttu loftið í kútunum, enda ekki víst að þeir komi nokkurntíman hingað aftur (að vísu sögðust sumir þeirra ætla að koma aftur eftir 2 ár).
Um leið og ég var kominn heim var farið strax niður á Grand Rock, en því hefur nú þegar verið gerð skil í máli og myndum.
Ég og Árni fórum að vísu á smá flakk síðar um nóttina, þ.á.m. í partý í Hafnarfirði og svo aftur í Reykjavík (á NASA af öllum stöðum), en það var nú bara skemmtilegt flakk, enda veðrið svo gott og enginn tilbúinn til að fara að sofa strax. Svo var bara skellt í sig einni pizzusneið áður en haldið var heim á leið, seint og um síðir.
Daginn eftir vorum við ekki alveg eins hressir og daginn áður, en laugardagurinn fór í fótboltagláp og sáum jafnframt Ísland tapa fyrir Króötum í handbolta. Ég tók því svo bara rólega fyrir framan sjónvarpið um kvöldið.