Vaknaði um 11 leitið, fór í sturtu, fékk mér smá morgunmat, setti í þvottavél og fór að gera mig tilbúinn til að skreppa í smá hjólatúr, þegar síminn hringdi. Þetta var Héðinn kafari og var að láta mig vita að það stæði til að fara í köfun klukkan 4. Jibbí, langþráð köfun komin á dagskrá, en ég hafði ekki bleytt gallann síðan í maí, þegar ég fór í Silfru á Þingvöllum.
Ég byrjaði því á að taka til græjurnar og skrapp svo í smá hjólatúr niður á ylströnd. Keypti mér ís og horfði á allt fólkið busla í köldum sjónum, en sjálfur hætti ég mér ekki út í þennan kulda, enda engin ástæða til. Ég skrapp svo í smá kaffi til mömmu og pabba og klukkan 4 var ég svo mættur upp á Drangahraunið, þar sem kafarinn.is er til húsa. Þarna voru mætti Héðinn og Jón Ingvar, en hann var nemandi, sem var að taka 3. og 4. köfunina í grunnnámskeiðinu (sama og ég er búinn með).
I.
Ákveðið var því að taka tvær kafanir við Óttarstaði, en sá staður er við Straumsvík. Mjög góður staður og gott aðgengi fyrir kafara í sjóinn. Á þessum tíma var háflóð og skilyrði því með besta móti, enda spillti veðrið ekki fyrir, ca 20 stiga hiti, logn og sól. Þegar við vorum búnir að galla okkur upp og gera nauðsynleg tékk á hvorum öðrum, þá var manni orðið mjög heitt og ekki eftir neinu að bíða, en að skella sér útí.
Um leið og maður kom útí varð ég strax mjög hissa, því undir yfirborðinu var svolítið sem ég hafði aldrei séð áður. Glær, slímkend, sívalingslaga dýr, u.þ.b. 5 cm á lengd og 2 cm í þvermál, að mestu hol að innan og með litlum ljósbrúnum kjarna. Eða bara eins og dvergasmokkar, með músaskít í miðjunni. Þetta var ekki bara eitt og eitt dýr heldur óteljandi. Sum þeirra voru stök, en önnur höfðu tengst saman keðjur á að giska um 50 cm langar. Við nánari skoðun sá ég að dýrin gátu hreyft sig smávegis (þar með var það ljóst að þetta voru ekki dvergasmokkar), en aftast á þeim var smá sepi sem gat gengið upp og niður og gat það þannig synt um (þó að straumarnir hafi nú sennilegast ráðið mestu um það hvar það var statt þá stundina). Veit ég nú ekki alveg hvaða dýr þetta voru, en datt helst í hug að þetta væru mjög ungar marglyttur, þ.e. á einhverju lirfustigi, ef hægt er að tala um lirfur þegar marglyttur eru annarsvegar.
Ef einhver veit eitthvað meira um þetta þá væru þær upplýsingar vel þegnar hér í athugasemdum.
Ég hélt mig nálægt Héðni og Jóni Ingvari á meðan Jón Ingvar gerði þær æfingar sem hann átti að gera og skoðaði fiskana á meðan, en þarna var allt fullt af þoski og hef ég heldur ekki séð jafn mikð af þoski þarna áður og voru dýrin komin þarna saman til að borða hvort annað. Eftir 24 mínútur og skemmtilega köfun var kominn tími til að skríða á land og skipta um kút, því við áttum jú eftir að taka eina köfun til viðbótar og Jón Ingvar að klára þær æfingar sem hann átti eftir til að klára námskeiðið.
II.
Seinni köfunin var mjög svipuð og sú fyrri, enda vorum við á sama stað. Við vorum í þetta sinn 37 mínútur í kafi og fórum einnig lengra út og dýpra, en mesta dýpi var niður á 17,5 m en fyrsta stigið í köfuninni gefur ?réttindi? niður á 18 m. Þegar við vorum komnir á þetta dýpi þá vorum við komnir út úr þessu belti með glæru geldýrunum og farnir að kafa um í stórum þaraskógi. Þó að þetta hafi verið frekar djúpt fyrir mig þá var þetta ekki mjög djúpt fyrir þann fisk sem við sáum þarna, en það var karfi. Hann var þarna á milli tveggja stórra steina og var ótrúlega spakur, en við syntum alveg að honum og hreyfði hann sig ekki neitt fyrr en að Héðin reyndi að grípa í hann, en þá fór hann innar á milli steinanna og sáum við hann ekki aftur. Sandbotninn virtist við fyrstu sýn ekki vera mjög merkilegur, en þegar ég kom nær þá fór hann á harðahlaup, en þarna voru fullt af litlum kuðungakröbbum (einbúum), einn og einn stærri krabbi hafði komið sér fyrir í beitukóngshúsi og hnipraði sig saman inn í kuðunginn þegar hann var tekinn upp og lokaði fyrir með stóru klónni sinni.
Þegar við vorum svo komnir aftur upp á yfirborðið og vorum að synda í land stakk ég höfðinu einstaka sinnum niður og kom þá auga á ótrúlega fallega marglyttu. Hún var í laginu eins og loftfar, u.þ.b. 15 cm löng og um 5 cm í þvermál. Eftir endilöngu var hún með rendur sem lýstust upp eins og hún væri með fullt af jólaseríum af nýrri gerðinni, en ljósin voru í öllum litum og færðust eftir henni endilangri.
Þar með var þessum köfunardegi að ljúka og héldum við aftur upp á Drangahraunið, þar sem að við skoluðum græjurnar og gengum frá eftir okkur.
Um kvöldið gerði FH jafntefli við skoska liðið Dunfermline (tapaði niður 2 ? 0 forystu í 2 ? 2), en ég missti af leiknum og heyrði bara lokamínúturnar. Svo endaði þessi dagur á því að ég og Árni fórum á Doors kvöld á Gauknum og tókst það alveg með ágætum og kann ég alltaf betur og betur við Doors eftir því sem maður heyrir lögin þeirra oftar, en þetta var náttúrulega svona ?best of? tónleikar og kannaðist ég því við nokkur lög þarna, en Árni þekkti hvern einasta tón og tók eftir því þegar eitthvað var ekki alveg nákvæmlega eins og í upprunalegu útgáfunni, en þetta var jú ekki Doors á sviðinu og því ekki við öðru að búast.
Svo var nú bara farið að sofa og hugsað um morgundaginn, því klukkan 10 næsta morgunn átti að skella sér í kaf að nýju.