þriðjudagur, október 05, 2004
|
Skrifa ummæli
Zagreb
Föstudagur 17. september 2004
Árni og Hjölli ákváðu að fara ekki í þessa ferð enda eru þeir viðkvæmir og þola illa svona langa rútuferð. Þeir djömmuðu lengur kvöldið áður eftir ævintýri okkar í Rovinj (sjá pistil Árna) en við Sonja fórum snemma í háttinn. Við vöknuðum klukkan hálfátta um morguninn, Sonja bjó til nesti fyrir okkur og síðan var rölt niður að bílaplani þar sem biðu tvær rútur fyrir hópinn. Við ákváðum að taka þá fyrri því Steinki var fararstjóri í henni, Soffa var ekkert í miklu uppáhaldi hjá okkur frá deginum áður auk þess sem hún hefur frekar skrækan talanda.

Rútuferðin tók um 3 klukkustundir,ekið var um fallega náttúru Króatíu undir seiðandi rödd Steinka í hátalarakerfinu þar sem hann rakti sögu Króatíu frá steinöld þegar menn voru hamingjusamir og kunnu að lifa sem hluti af náttúrunni, fram að tímum Rómverjanna þegar menn kunnu að halda almennileg kynsvöll og hafa spennandi kappleiki og til okkar tíma þar sem menn kunna helst að drepa hvorn annan og náttúruna. Mjög fróðlegt var að hlusta á sögu landsins og skemmtileg leið til að drepa tímann í rútunni. Það var stoppað einu sinni á leiðinni á bensínstöð sem Soffa notaði til þess að bæði sjúga í sig kosmíska krafta og borða á sama tíma - hef ekki oft séð fólk borða með sígarettu í kjaftinum en það er greinilega hægt. Ég fékk mér einn expresso en Króatar eru ansi lunknir í kaffinu enda búa margir ítalir á Istríaskaganum og því er einnig frábær matarmenning þarna.

Um 11 leytið keyrðum við inn í borgina og fórum fyrst í gegnum útivistar- og íþróttasvæði borgarbúa en það þykir í fremstu röð í heiminum og ótrúlega flottar aðstæður þarna. Kommúnistablokkir eru órjúfanlegur hluti af borgum í þessum heimshluta og voru þær margar þarna í úthverfunum ljótar og stórar, en það er samt einhver sjarmi sem fylgir þessu. Rúturnar tóku smá hring í miðbænum á meðan Steinki bæði benti sagði okkur frá því helsta eins og óperunni, þinghúsinu og fleiri skemmtilegum húsum þarna. Að lokum var fólkinu hent út úr rútunum fyrir framan dómkirkjuna sem er í efri hluta borgarinnar en efri og neðri hluti hennar voru aðskildir hér áður fyrr og nokkur rígur á milli íbúa borgarhlutanna. Við hófum borgarröltið á klósettinu eins og flestir aðrir en síðan fór hópurinn inn í kirkjuna (nokkrir fóru reyndar beint að versla) ásamt króatíska leiðsögumanninum sem tók á móti okkur, en það er víst skylda að hópar gangi þarna um með innfæddum fararstjóra. Kirkjan var svona dæmigerð kirkja en það merkilega var kannski glerkistan við altarið, í henni var einhver gaur sem var biskup eða eitthvað slíkt í kirkjunni hér áður fyrr.

Eftir kirkjuna var gengið um gamla bæinn og leiðsögumaðurinn kynnti okkur sögu staðarins en ég ætla ekki að endurtaka hana hérna enda man ég nú lítið af henni. Leiðsögnin endaði síðan á einhverjum palli þaðan sem gott útsýni var yfir bæinn. Við Sonja ákváðum þá að fara og fá okkur að borða enda var klukkan orðin eitt og stelpan orðin ansi svöng og ég líka. Við röltum því niður í miðbæinn og hófst leit að veitingahúsi sem reyndist ekkert grín, allir staðirnir virtust vera útikaffihús sem buðu ekki upp á neinn mat og var mín orðin ansi geðvond og pirruð. Við ákváðum að lokum að fara aftur upp að kirkjunni því Sonja hafði séð þar veitingahús og reyndist það rétt hjá henni - var það hið ágætasta útiveitingahús. Við fengum okkur þar svínasnitsel og bjór, bara ágætis matur. Íslendingur sem hafði verið með okkur í rútunni heilsaði þarna upp á okkur, en hann er með ljósmyndadellu eins og við og var með Canon 10D myndavél og um 6 linsur með sér, sumar mjög dýrar.

Eftir matinn röltum við niður í bæ, kíktum aðeins í búðir og útimarkað en það er kannski ekkert sérstakt um það að segja. Við reyndum að finna bókabúð með enskum bókum en það tókst ekki og einnig reyndi Sonja að finna sér skó, en fann enga nógu dýra.

Miðbærinn er mjög stórborgarlegur með stórum göngugötuu, útikaffihúsum, borgarlífi og húsin eru gömul en vel við haldið og borgin hefur skemmtilega heildarmynd. Við dóluðum okkur þarna þangað til klukkan var um 15:30 og fórum þá að rölta upp að kirkjunni en þar áttum við að vera komin kl. 16:00 (ekki klukkan 15:50 eða 16:10 heldur 16:00). Við enduðum ferðina á sama hátt og hún byrjaði, á klósettinu við hliðina á kirkjunni og á meðan ég beið eftir Sonju (allar íslensku konurnar fóru á sama tíma á klósettið og því þurfti ég að bíða í c.a. 10 mínútur) reyndi ég að vera mjög lúmskur í að taka myndir af litlum en gömlum umrenningi , lítill og með mikið grátt skegg. Mér reyndist erfitt að ná af honum mynd því hann sneri alltaf baki í mig, að lokum fór hann að klósettinu og kallaði þar hálfgrátandi á klósettvörðinn sem var eldri kona og kvaraði yfir því að ég væri að taka af honum myndir. Við Sonja hröðuðum okkur því að rútunni og biðum þar þangað til lagt var af stað.

Í Zagreb er umferðin mikið vandamál og lentum við í mikilli umferðateppu á leið úr borginni, ég fór því aftast í rútuna og lagði mig í c.a. klukkustund en vorum við ennþá föst þegar ég vaknaði. Fljótlega greiddist þó úr flækjunni. Síðan var haldið sömu leið til baka og fólk virtist flest vera þreytt eftir skemmtilegan dag enda sváfu margir og Steinki var ekkert að messa yfir okkur, enda hefði sennilega enginn heyrt það sem hann hafði að segja. Við komum síðan til baka um 22 leytið en höfðum enga lykla og bakkabræður voru ekki í íbúðinni okkar, við ákváðum því að athuga hvort þeir hefðu skilið hann eftir í afgreiðslunni en rákumst á þá á útiveitingahúsinu á leiðinni. Þar voru þeir nokkuð "ligeglad" eftir afslappandi dag og nokkra bjóra, við ákvaðum að fá okkur einnig í gogginn bæði mat og drykk. Héldum síðan öll heim á leið í okkar ágæta hús og fórum snemma að sofa eftir miserfiðan dag.
    
Glæsiblogg, fagmannlega unnið, vel skrifað og skemmtilegar myndir í blogginu til að skreyta þann enn meira.
09:58   Blogger Árni Hr. 

Margir góðir punktar í þessu bloggi.
HS
14:04   Anonymous Nafnlaus 

Fínasta ferðassaga, ferð sem ég fer í bara einhverntíman seinna. Það sést á gamla manninum að hann hefur verið orðinn mjög þreyttur á þessum myndatökum.
16:25   Blogger Hjörleifur 
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar