Sendi þetta bréf til neytendasamtakanna
VISA og punktarnir, vildarvinur eða vildaróvinur.
Eins og við vitum þá reyna fyrirtækin alltaf að snuða neytendur eins mikið og hægt er og auglýsa sig með gulli og grænum skógum, en allt sem við uppskerum er hækkandi vöruverð. Af þeim sökum skráði ég mig í neytendasamtökin fyrir nokkrum mánuðum, enda orðinn langþreyttur á þessu stöðuga hakki.
Þannig er mál með vexti að ég (eins og margir aðrir Íslendingar) er með VISA kort. Þetta er hið ágætasta farkort og skráði ég það í hina ýmsu klúbba sem boðið er uppá og borga reikninga með þessu með sjálfvirkum hætti. Allt ofsalega þægilegt. Þetta gerir maður í þeirri trú að maður sé að safna punktum. Svo ferðast maður nokkrum sinnum til útlanda og verslar og hjá öllum þessu punktasöfnunarfyrirtækjum og svo eftir dúk og disk fer ég og tékka á punktastöðunni og ætti hún nú að vera orðin nokkuð góð þar sem að ég hef verið svo góður kúnni, en þá er hún í algjöru núlli. Samt sem áður er ég meðlimur í "Vildarklúbbi Icelandair", og "Vildarvinur Shell" og hef verslað þó nokkuð við þessi fyrirtæki auk þess sem ég borga ýmsa reikninga með þessu korti. Ég hef bara ekkert skilið í þessu og þegar ég skoða hvernig ég er skráður sé ég ekki betur en að ég sé bara traustur vildarvinur í hinu og þessu og kortið mitt alveg löglega skráð og allt í góðu með það, en samt sem áður gerist ekki neitt, alltaf er punktastaðan í núlli.
Ég er var orðinn töluvert pirraður á þessu ástandi og sendi VISA fyrirspurn um málið og krafðist leiðréttingar á þessu, en þá voru þeir að sjálfsögðu með trompið í erminni, sem ég gat nú ekki vitað um, þar sem að allar heimasíður sögðu mér að ég væri alveg löglega skráður í alla klúbba og kortið mitt í fínu lagi og ég veit ekki hvað og hvað. Nei ég fékk þá trompið beint í fésið, ég var ekki með "Vildar-farkort", það kostar ekkert meira, og kortanúmerið er það sama, en það er mynd af flugvél utan á kortinu. Það verður nú að segjast eins og er að mér finnst eins og ég hafi verið hafður af fífli og nú sitja þau hjá VISA og skellihljægja og fagna þessu snilldarbragði að plata fólk til að safna punktum og fá afslátt, en gefa manni svo ekki neitt nema langt nef.
Allt sem ég hef haft upp úr þessu er bara hærra vöruverð, því það er jú ekki til neitt sem heitir ókeypis í þessu landi og ef einhver fær afslátt einhverstaðar, þá borgar hann einhver annar. Því þegar allt kemur til alls þá er það ekki hagur kúnnans sem er í fyrirrúmi, heldur hagur eigenda fyrirtækjanna.
Einn mjög pirraður vildaróvinur
Hjörleifur Sveinbjörnsson
|
Það var laglegt hjá þér Hjölli - ekki að láta menn komast upp með allt!
14:34 Joi
|
|