Pantaði þessa bók fyrir tæplega ári síðan af Amazon og las hana núna í vikunni. Hún er ekki nema 110 bls. og því var þetta fljót lesning.
Höfundurinn Elie Wiesel er vel þekktu og virur, hann hefur skrifað mikið um helförina og önnur mál tengd stríði og hann fékk árið 1985 friðarverðlaun Nóbels fyrir þessi störf sín.
Bókin segir frá því þegar hann sem 12 ára drengur (1944) var tekinn með fjölskyldu sinni úr smábæ í Ungverjalandi og fluttur í útrýmingabúðir nasista í Auswitch. Systir hans og móðir voru aðskildar frá honum og föður hans við komuna í búðirnar og sá hann þær aldrei aftur, hann náði ekki einu sinni að kveðja þær. Það er ótrúlegt er að lesa lýsinguna á því þegar þau komu í búðirnar, þetta hefur verið eins og hreinasta helvíti. Lestin kom að kvöldi til og ofnarnir voru á fullu við að brenna lík, stromparnir spúðu eldi og lykt af brenndu holdi lá yfir öllu svæðinu. Farið var með fangana eins og skeppnur, það fyrsta sem drengurinn sá þegar hann gekk inn á svæðið var vörubíll að sturta fullum farmi af börnum í pytt sem var notaður til að brenna lík (ofnarnir í gasklefunum höfðu ekki undan á þessum tíma).
Stór hluti bókarinnar fer í að lýsa daglegu lífi í fangabúðunum, hann lýsir t.d. því þegar ungur drengur (11 eða 12 ára) var hengdur fyrir framan allar búðirnar en hann var svo léttur að snærið náði ekki að þrýsta nægilega að hálsinum svo hann hékk og kvaldist í 30 mínútur. Mörg slík atvik áttu sér stað sem Elie segir frá í bókinni en ég ætla ekki að fara í hérna.
Þegar Sovétmenn síðan voru að nálgast Auswitch var öllum föngum smalað saman og látnir hlaupa alla nóttina að lest sem flutti þá síðan til Buchenwald búðanna.
Frá þessari göngu er líka sagt í bókinni "I was dr. Mengele's assistant" og er ótrúlegt hvað lagt var á fangana þessa nótt. Farið var yfir 50 km án þess að stoppa og náði aðeins lítill hluti þeirra sem lögðu af stað á áfangastað, eða um 10%. Þeir sem hægðu á sér eða gáfust upp á leiðinni voru skotnir. Þegar hlaupunum loks lauk voru þeir settir í opna lestarvagna og tók við þriggja sólarhringa ferð til Buchenwald búðanna. Tvisvar á leiðinni var stoppað og þeir sem höfðu dáið á leiðinni var hent úr
lestinni. Á einum stað henti bóndi brauðmola inn í vagninn sem Elie og faðir hans voru í og hófst þá dauðastríð um þennan mola þar sem menn slógust með hnefum, kjöftum, bitu og klóruðu hvor annan til að ná molanum. Sonur eins manns nánast klóraði úr föður sínum augun og drap hann til að ná í molann. Aðeins lítill hluti þeirra sem lögðu af stað í lestarferðina lifði af og voru menn orðnir eins og lík þegar henni lauk, hinir eftirlifandi voru nær dauða en lífi. Faðir Elie lést nóttina eftir að þeir komu í búðirnar. Bókinni lýkur síðan þegar Elie er kominn á sjúkrahús eftir að bandamenn náðu búðunum og hann lítur í spegil í fyrsta skiptið í marga mánuði, hann sá aðeins lík í speglinum.
Þessi bók lýsir vel þessum hræðilegu atburðum og hefur fengið frábæra dóma og mörgum þykir þetta vera skyldulesning til að þessir atburðir gleymist ekki. Bókin er mjög vel skrifuð og er nánast ljóðræn á köflum án þess að vera neitt tilgerðaleg eða reynt að gera mikið úr hlutunum. Elie ákvað að segja ekkert um þessa atburði í 10 ár eftir að hann losnaði úr búðunum því hann gat engan veginn unnið úr þeim enda var hann illa farinn eftir þessa atburði. Ég get ekki annað en gefið henni fullt hús því hún er eiginlega hafin yfir gagnrýni.