fimmtudagur, febrúar 24, 2005
|
Skrifa ummæli
Ferð í morgunblaðið
Við Sonja fórum ásamt c.a. 15 öðrum myndanörrum í heimsókn til ljósmyndadeildar Morgunblaðsins á vegum ljosmyndakeppni.is seinni partinn í gær. Einar Falur myndstjór morgunblaðsins tók á móti okkur og fór með okkur inn í aðstöðu þeirra. Þeir eru flestir saman í bás þar sem 6 tölvum er raðað í hring og síðan eru 2-3 í skrifstofum, sem eru vaktstjórar og slíkt.
Hann byrjaði á því að segja okkur frá deildinni, þ.e. hvernig hún varð til og hvernig vinnuflæðið er hjá þeim, og ætla ég að reyna að segja frá þessum hlutum í nokkrum orðum:

Ljósmyndarar blaðsins eru um 10 talsins (ef ég man rétt) og eiga þeir allir sínar græjur sjálfir (þurfa að eiga 2 stafræn body ásamt linsum) og er það vegna þess að þá eru menn að vinna á tækjum sem þeir vilja vinna á og eins fara menn betur með sín eigin tæki (mbl borgar síðan leigu eða eitthvað slíkt fyrir tækin). 95% mynda blaðsins eru tekin á stafrænar vélar og eru það lang mest Canon tæki sem þeir vinna á (ástæðan er aðallega sú að Beco er með öfluga viðgerðaþjónustu).

Vinnuflæðið á deildinni er nokkurn vegin svona: Vaktstjóri tekur við beiðnum um þá atburði sem þarf að mynda og þarf það mikla skipulagningu því að ef menn mæta of seint þá verða ekki til neinar myndir. Fréttamenn geta skrifað fréttir eftir á en ljósmyndarar geta það að sjálfsögðu ekki. Vaktstjóri úthlutar þessum verkefnum á ljósmyndarana sem fara á vettvang og taka slatta af myndum og einnig þurfa þeir að taka eina "creative" mynd á dag, og koma síðan upp á skrifstofu og tæma myndirnar inn á vélarnar. Þá tekur við ferli í tölvunum sem hver ljósmyndari sér sjálfur um en hann byrjar á því að taka myndirnar inn í FotoStation og henda þeim sem eru ónothæfar og síðan skrifar hann inn í myndirnar (í IPTC svæði) ýmsar upplýsingar sem þarf til að hægt sé að finna og þekkja myndirnar síðar svo sem, dagsetningu, ljósmyndara, staðsetningu, lýsingu o.flr. Þessu næst vinnur hann myndirnar í Photoshop sem koma til greina í blaðið sjálft eða á myndaborð Morgunblaðsins, þ.e. laga birtu og liti og slíkt ásamt því að "crop"-a myndina en algjörlega bannað er að taka út hluta úr mynd í þessum bransa, þ.e. að taka t.d. út manneskju í bakgrunni sem skemmir heildarsýnina o.s.frv). Þegar þessu er lokið færir hann bestu myndirnar á myndborðið en þangað fara þær myndir sem starfsmenn myndborðsins geta valið úr í blaðið.
Inn í hugbúnaðinn hlaðast einnig myndir frá Reuters sem notaðar eru í blaðinu en þeir fá að meðaltali 500 myndir á dag frá þeim í gegnum áskrift og er frjálst að nota myndirnar í blaðið eftir þörfum án þess að borga sérstaklega fyrir hverja birtingu. MBL er samstarfsaðili Reuters á Íslandi og sendir út þær myndir sem Reuters gætu hugsanlega haft áhuga á af fréttatengdum málum frá Íslandi og fær þá Morgunblaðið umboðslaun ef Reuters notar myndina, en ljósmyndarinn fær greidd höfundarlaun. Höfundarréttarlög eru mjög skýr á Íslandi og ekki er hægt að framselja höfundarrétt þannig að Morgunblaðið gerir samning við hvern ljósmyndara um að nota myndirnar í blaðinu og er ekkert greitt fyrir hverja birtingu en ljósmyndarinn fær síðan greitt fyrir ef myndir eru seldar á netinu eða af erlendri fréttastofu.

RAX var þarna á svæðinu og heilsaði upp á okkur en hann er andlit þessarar deildar út á við enda þeirra reyndasti ljósmyndari (hefur starfað hjá blaðinu síðan hann var 16 ára og var lengi með stofnanda deildarinnar sem kennara en hann þykir einn af allra bestu ljósmyndurum sem Ísland hefur gefið af sér). RAX vinnur ekki að daglegum verkefnum eins og hinir heldur sér um að fanga land og þjóð í gegnum myndir sínar en vinnur einnig að sérverkefnum. Hann sagði einmitt að það hafi verið gaman að fylgjast með rifrildi á vefnum um það hvort hann væri ofmetinn en einn á umræðuþráðunum vildi meina að hann væri ekkert betri ljósmyndari en hann sjálfur en hefði það framyfir að hafa flugvél og jeppa til umráða sem skapaði mikið rifrildi, sem tveir af ljósmyndurum blaðsins tóku m.a.s. þátt í.

Einar sagði okkur að til þess að bæta sig í ljósmyndun væri mjög gott að taka mynd af íþróttaviðburðum og nota manual fókus. Eins er mjög gott að velja sér einhvern "mentor" til þess að þroska sig sem ljósmyndara en þá finnur maður einhvern sem maður lítur upp til og reynir að stæla hans myndir og vera mjög gagnrýninn á bæði aðrar myndir og sínar eigin og þegar maður hefur masterað að taka myndir eins og þessi fyrirmynd þá getur maður farið í að þróa sinn eigin stíl. Cartier-Bresson er t.d. ágætis fyrirmynd en hann dó nýlega en er að mati margra besti ljósmyndari allra tíma.

Einnig kom í ljós (sem ég vissi ekki) að iðnskólinn býður upp á einu viðurkenndu gráðuna á Íslandi í ljósmyndun og er ágætis undirbúningur að frekara námi. Eftir það nám þurfa nemar að fara í starfsnám hjá t.d. morgunblaðinu og sýndist mér margir þarna í hópnum hafa þann draum að komast að hjá þeim (eitt laust pláss ef menn hafa áhuga á að sækja um).

Þetta var fróðleg og skemmtileg ferð en við Sonja þurfum því miður að fara áður en heimsóknin var búinn því við þurftum að snúa okkur að íþróttum, Sonja að spila badminton en ég að horfa á fótbolta og drekka bjór :-)
    
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar