Eftir vel heppnað kráarrölt á föstudeginum tók við viðburðaríkur laugardagur. Þrátt fyrir að hafa komið heim rétt fyrir 5 um nóttina var vaknað kl. 10 og fenginn sér smá morgunmatur og svo kom Jói og sótti mig og við fórum á félagsfund í THS, eins og venjulega. Seðillinn gekk alveg ágætlega og fengum við 11 rétta í þetta skiptið og erum við nú í 4. sæti í 2. deild hópleikjarins, sem verður bara að teljast ágætis árangur.
Um daginn stóð svo til að skella sér út í smá hjólatúr, en sökum snjókomu og ágætis leikja í sjónvarpinu var því slegið á frest. Svo hringdi Héðinn kafari í mig og sagði að það væri næturköfun framundan um kvöldið og ætti ég að koma með kennslubókina með mér. Ég varð því að drífa í því að lesa næturköfunarkaflann og gera verkefni og fá mér snarl og taka til græjurnar og sækja 2 stráka upp í Breiðholti, setja vatn á vatnskassann, svo að bíllinn kæmist nú alla leið suðrí fjörð. Þetta tókst svona nokkurnvegin.
Við vorum svo komnir á
Óttarstaði um 9 leitið, en myrkur átti að skella á kl. 9:11. Veðrið var alveg frábært, logn og stjörnubjart og sjórinn mjög þægilegur. Á leiðinni út var alveg meiriháttar að láta sig bara fljóta og horfa upp í himininn.
En svo var líka kafað. Mín fyrsta næturköfun og er hluti af
Advanced Open Water námskeiðinu. Ég átti í smá erfiðleikum með jafnvægið í byrjun köfunarinnar og fékk líka krampa í hægri fót og þurfti því að gera smá teygjuæfingar þarna niðri, en svo lagaðist þetta. Eftir þessa erfiðu byrjun var ekkert nema bara skemmtun eftir, en eftir að hafa kafað í gegnum smá þaraskóg og niður á um 20 metra dýpi sáum við
karfa, en þetta er í 2. skiptið sem ég sé karfa þarna, en venjulega lifir hann á töluvert meira dýpi. Eftir að hafa skoðað hann í smá stund settumst við niður á sandinn þar og slökktum ljósin. Þá komu í ljós litlar agnir sem lýstu út um allt og þegar maður sveiflaði höndunum í þarna í gegn þá lýstist allt upp og það varð það mikið að ég sá útlínur næsta kafara. Maður varð gjörsamlega dolfallinn, en það var engu líkara en maður væri bara staddur einhverstaðar út í geimnum. Eina hljóðið var bara manns eigin andardráttur og svo voru þessi litlu ljós sem minntu einna helst á litlar stjörnur, en samt var allt á hreyfingu. Alveg stórfurðuleg upplifun. Þessar litlu agnir kallast í daglegu tali
ljósáta, en hún er krabbadýr og vinsæl fæða meða dýranna í sjónum, en vegna flúors sem gengur inn undir skelina þegar hú drepst þá er hún alveg óhæf til manneldis.
Við kveiktum svo ljósin aftur og héldum áfram köfuninni. Á leiðinni til baka komum við auga á okkrar rækjur, en svo voru allt fullt af ígulkerum eins og venjulega og nokkrir krabbar hér og þar auk eins
marhnúts. En svo fórum við bara upp og syntum í land með aragrúa af stjörum fyrir ofan okkur í alveg frábæru veðri. Þær gerast varla mikið betri kafanirnar.
Ég var svo kominn heim um hálf eitt um nóttina, en þá tók við lestur næstu kafla, en ég varð að vera búinn með þá og gera verkefnin fyrir kl. 8 um morguninn. Þetta tóks og sótti ég sömu strákana og kvöldið áður og héldum suður í fjörð. Nú var planið að taka 2 kafanir. Báðar þessar kafanir voru eins og næturköfunin hluti af AOW námskeiðinu. Í fyrri köfuninni voru gerðar æfingar með áttavita og einnig prófaðar aðrar aðferðir sem maður notar til að áætla stefnur og vegalengdir í kafi. Í seinni köfuninni voru leitaraðferðir æfðar og komum við svo að lokum upp 2kg lóði upp, með aðstoðar loftpoka. Þessar tvær voru einnig mjög skemmtilegar, en það er líka gaman að geta verið að dunda sér við eitthvað þarna niðri og hafa eitthvert ákveðið verkefni fyrir höndum.
Nú er ég semsagt búinn með 3/5 hluta af námskeiðinu. Næst verður tekin fyrir djúpköfun og í lokin köfun með
DPV (Diver Propulsion Vehicle), en það er semsagt svona smá tæki með skrúfu sem dregur mann áfram (alveg eins og í James Bond).