Nú er ég búinn að láta draga mig á 2 myndir á kvikmyndahátíðinni (af Árna í bæði skiptin). Fyrri myndin, Hola í hjarta mínu, var hreint út sagt mögnuð mynd. Hún fjallar um fjóra vesalinga sem búa saman í lítilli blokkaríbúð. Þau eru öll orðin frekar mikið heilaskemmd af langvarandi sukki og volæði, fyrir utan einn. En þessi eini tekur ekki þátt í neinu sem hin eru að gera og hefur að mestu bara lokað sig inni í herberginu sínu og hefur dregið fyrir og hlustar á vélarhljóð (sem mér var svo tjáð að væri "industrial" tónlist).
Í þessari íbúð gerast vægast sagt hræðilegir atburðir og ekki fyrir hvern sem er að sjá þessa mynd. Hún skilur mikið eftir sig og þá fyrst og fremst vegna þess að myndin lýsir aðstæðum sem sumt fólk býr við í dag og varð mér oft hugsað til fyrrum nágranna minna þegar ég horfði á myndina, enda margt í myndinni sem minnti á þá.
Ofbeldið er svo raunverulegt og hræðilegt í þessari mynd að mjög margir í bíógestir gátu ekki setið undir þessu og gengu út í miðri mynd eða í hléi.
Ég hef nú nokkrum sinnum verið spurður að því hvort ég gæti mælt með myndinni og á ég mjög erfitt með að svara því. Það fer algjörlega eftir því hversu fólk er viðkvæmt og tilbúið til að sjá þennan raunveruleika sem vissulega er til í þjóðfélaginu, þennan sora og viðbjóð sem við lokum augunum fyrir í daglegu lífi og viljum sem minnst af þessu vita. Ef maður er ekki tilbúinn til að opna augun þá get ég ekki mælt með henni, en fyrir þá sem eru tilbúinir til að opna augun og viðurkenna að þessi heimur er til þá get ég hiklaust mælt með myndinni.
Seinni myndin var "Terror Firmer".
Framleiðandi þessarar myndar er þekktur fyrir að hafa gert sérlega mikið af B-hryllingsmyndum. Þessi mynd fjallar svo um kvikmyndatökulið sem er einmitt að búa til svona B-hryllingsmynd. Þetta var príðis góð skemmtun, þar sem að blandaðist saman mikið blóð og mikið grín. Ekki mikið meira hægt að segja, en ef fólki fanst gaman af "Toxic Avenger" þá ætti það ekki að láta þessa framhjá sér fara. Framleiðandinn (og leikstjóri) myndarinnar, Lloyd Kaufman, svaraði svo spurningum í rúmlega hálftíma eftir myndina og var það líka ágætasta skemmtun, en þarna var saman kominn mesta kvikmyndanördafélag íslands og var einn meðlimurinn þar verðlaunaður í lokinn með smá viðurkenningarskjali frá Lloyd Kaufman og varð hann himinlifandi yfir því.
Það sem vakti athyggli okkar Árna á þessari mynd var einnig ákveðin persóna. En það var Páll nokkur, sem hefur fengið ýmis nöfn á sig sem ég ætla ekki að nefna hér, en hann átti það til að borða mjög mikið af ákveðinni gerð af súkkulaðitegund, í þetta skipti var hann þó ekki með neitt súkkulaði, en hann hélt á einni tveggja lítra kókflösku (tómri) og var með aðra eins lítra sem hann drakk úr á meðan sýningu stóð.
Þessi drengur spurði einnig tveggja spurninga og verður að segjast að verri ensku hef ég ekki heyrt í áraraðir og legg til að Inga Blandon heimsæki hann hið fyrsta.