Vondur dagur
Í gær borðaði ég jógúrt í morgunmat kl. 7:15 og síðan borðaði ég ekkert og fékk mér ekki vatnssopa fyrr en kl. 17. Ástæðan er sú að ég fór í magaspeglun kl. 14:30 og þurfti að fasta fyrir það. Ég hef fundið fyrir óþægindum í maga og því ákvað ég að fara í magaspeglun og láta athuga hvort allt væri ekki í lagi. Það reyndist ekkert vera að, smá roði í maganum en það er ekkert óeðlilegt þannig að þetta er væntanlega bara aumingjaskapur hjá mér. Þetta fór þannig fram að ég var látinn leggjast á bekk og breitt yfir mig, síðan var sprautað einhverju ógeði í kokið á mér sem deyfði hálsinn sem var frekar óþægileg tilfinning og síðan var ég sprautaður með kæruleysissprautu. Ég sofnaði í smá stund og þegar ég vaknaði þá heyrði ég fólk vera eitthvað að labba bakvið tjaldið sem ég var inni í og síðan kom hjúkka og sagði að ég mætti klæða mig. Ég varð steinhissa því ég hafði sofið allan tímann og fannst ég hefði bara dottað í 5-10 mínútur. Sonja var föst í vinnu og gat því ekki náð í mig þannig að ég fór bara og fékk mér kókamjólk og eitthvað brauðmeti í Mjóddinni og ætlaði síðan að leita mér að leigubíl en sá þá að strætóstöðin var þarna við hliðina á Mjóddinni og því borgaði ég 300 kr. í strætó (kostar víst 220 kr. en ég var bara með 300). Ég fór úr strætónum á miklubrautinni og labbaði Snorrabrautina heim. Ég var mjög slappur, fannst eins og ég væri með þynnku dauðans og lagði mig því þegar heim var komið og þegar Sonja kom heim með mat þurfti ég að æla og síðan var síðan ekki með neina matarlist og borðaði nánast ekkert um kvöldið og var með dúndrandi hausverk, máttlaus og með ógleði. Ég braggaðist samt aðeins þegar leið á kvöldið og leið örlítið betur þegar ég fór að sofa. Áður en ég fór að sofa horfði ég á skemmtilegan þátt á Discovery sem heitir Grand Designs. Ég hef séð nokkra þætti og í hverjum þætti er fólk tekið fyrir sem er að fara í að gera upp gamalt hús og fylgst með þessum framkvæmdum frá upphafi til enda. Í þættinum í gær var fylgst með pari sem rekur geisladiskaverslun á netinu sem keypti sér gamla orkustöð sem var mjög illa farin, þ.e. múrað var í alla glugga og allir veggir frekar ljótir og fullt af drasli inni í húsinu. Það var á einni hæð og um 400-500 fm og lofthæðin hefur verið c.a. 4m og allt einn stór geymur, þ.e. engin herbergi og ekkert stúkað af, og með tveimur stórum gluggum á þakinu og allir veggir voru með mjóum háum gluggum. Þau stúkuðu af 3 svefnherbergi, eldhús og baðherbergi og síðan var stofan afgangurinn af húsinu. Þetta kom ótrúlega flott út og það liggur við að manni langi til að kaupa eyðibýli og gera það upp (þau höfðu ekki mikla peninga á milli handanna, gerðu þetta allt sjálf og höfðu í raun enga verkkunnáttu). Í dag ætlum við Sonja að fara í útsýnisflug yfir borgina og borgum bara 1500 krónur fyrir það, sem er góður díll. Þetta er hluti af dagskrá í dag á sumardaginn fyrsta en í boði eru allskonar skoðunarferðir um borgina og út fyrir hana. Vonandi verður dagurinn betri en dagurinn í gær.
|