fimmtudagur, júní 23, 2005
|
Skrifa ummæli
Kínaferð - Myndir og uppgjör
Jæja, þá erum við komin heim eftir langa og stórkostlega ferð þar sem við sáum margt skrítið og skemmtilegt. Ferðin gekk ótrúlega vel og ég (Jóhann) vil meina að það hafi verið einhver verndarengill sem vakti yfir okkur - mamma heldur því fram að öll ættin hafi bara vakið yfir okkur. Þrátt fyrir að ferðin hafi verið skemmtileg þá er nú samt mjög gott að koma heim,fást við vinnuna og annað daglegt bras, að koma lífinu aftur á réttan kjöl.

Síðasti viðkomustaður okkar var Tæland sem er mesta túristalandið sem við heimsóttum í ferðinni. Á hverju horni bíður lygamörður eða annað hyski sem reynir að plata mann til þess að fara eitthvað annað en gönguförinni er heitið, yfirleitt í verslanir til að kaupa og allt þetta áreiti verður frekar þreytandi eftir smá tíma. T.d. er klassískt að maður eða kona gefi sig á tal við mann, byrja á því að kynna sig með nafni og starfi (eru yfirleitt lögfræðingar, læknar, kennarar eða eitthvað álíka) og spjallar um daginn og veginn. Síðan spyr það okkur hvað við ætlum að gera um daginn og þegar maður segist t.d. vera að fara á markaðinn þá segir það að maður ætti ekki að fara í dag því það sé lokað/of mikið fólk/ekki réttur klæðnaður o.s.frv. og maður ætti frekar að nýta daginn í að versla. Síðan sýnir það okkur á kortinu hvar besta verslunarhverfið er og segir að þar sé ein búð sem sé betri en aðrar og maður ætti bara að skella sér strax og reyna síðan að senda mann með leigubíl eða tuk tuk (gefa m.a.s. upp hvað ferðin muni kosta).
Eins reyna tuk-tuk (mótorhjól með vagni aftaná) ökumennirnir að segja manni að staðurinn sem maður sé að fara á sé lokaður og maður ætti frekar að fara annað og það er allt eftir þessu.
Tæland var samt skemmtilegt land og flest fólkið virðist vera gott þar en það er mikið af svikarhröppum, ágengum sölumönnum og fátæku fólki.

Við byrjuðum í norður-Tælandi í borg sem heitir Chang Mei og þaðan fórum við í tveggja daga ferð nyrst í landið og heimsóttum þar t.d. fílagarð,fjallafólk, kíktum yfir til Burma og aðeins aftur inn í Laos því ég gleymdi að kaupa BeerLao fyrir Hjöllann minn.

Síðan héldum við til Bangkok og vorum þar í tvo daga og heimsóttum m.a. fljótandi markaðinn,skoðuðum annað í borginni ásamt því að versla (án afskipta nokkura hjálpsamra tælendinga þó!).

Annars má segja að þetta hafi verið aðalviðkomustaðirnir í ferðinni:

* Rússland
- Moskva
- Lake Bakal í Síberíu (vorum í litlum bæ við vatnið)
- Irkutsk (einnig í Síberíu)
* Mongolía
- Vorum í 3 daga í gert tjaldi út á sléttunum
- Ulaan Baatar
* Kína
- Peking
- Xi'an
- Nanjing
- Suzhou
- Hangzhou
- Guillin
- Yangshuo
- Lusang
- Hong Kong
* Laos
- Vientene
- Luang Prabang
* Tæland
- Chiang Mei
* Burma
- Landamærabær
- Chiang Rai
- Bangok

Það sem mér fannst skemmtilegast í ferðinni var Kína, ótrúlega fjölbreytt land með skemmtilegu fólki og fallegri náttúru. Þar sá maður öðruvísi hluti en maður er vanur og stefni ég á að fara þangað aftur, jafnvel á næsta ári. Ef við förum í svipaða ferð að ári eru þetta þeir staðir sem ég hef áhuga á að heimsækja:

Indland
Nepal
Tíbet
Meira um vestur Kína
Bhutan
Bangladesh
Burma
Indonesíu
Balí

Við Sonja komumst að því að stórborgir á við Bangok, Moskvu, Hong Kong og Nanjing er ekki það sem okkur finnst skemmtilegast að skoða, þó þær séu skemmtilegar og stundum nauðsynlegar, heldur höfum við meira gaman af bæjum og þorpum, og myndum við sennilega stíla upp á það næst.

Nú tekur við að vinna úr þessum 10.000 myndum sem við tókum og reyna að henda eins miklu og við tímum og setja svona 500-1000 mynda úrval á netið. Eftir það ætla ég að búa til geisladisk með bestu myndunum og senda eintök af honum út um allan heim og reyna að koma myndunum á framfæri, maður tapar engu á því og aldrei að vita nema eitthvað komi útúr því þó maður búist ekkert endilega við því.
Síðan væri gaman að hafa myndasýningu á myndvarpa einhverstaðar fyrir þá sem hafa áhuga á því en ég hef ekkert pælt í því og veit ekki alveg hvernig best væri að framkvæma það ... eru einhverjar hugmyndir?

Hérna koma myndir frá seinasta hluta ferðarinnar og því verður þetta síðasta myndablöggið sem ég set svona margar myndir inn í einu úr ferðinni:


Börn uppi í Phousi-fjallinu í miðri Luang Prabang í Laos. Það voru rúmlegar 300 tröppur til að komast upp og skoða búddahof og annað skemmtilegt.


Kona að koma af markaðnum í Luang Prabang (LP).


Ungur heimsmaður að slaka á á kaffihúsi, drekkur mjólkursjeik og bjór og les bók um sögu Sony.(LP)


Reykingar mjög heilla rafta ... sjúgðu í þig kosmíska krafta. Lítill strákur að reykja.(LP)


Lítill strákur að leika sér fyrir framan búddahof. (LP)


Maður sá ekki oft gamla munka því flestir drengir hætta þessum meinlætalifnaði um 20 þegar þeir hafa lokið háskólaprófi og hefja lífsgæðakapphlaupið með okkur hinum. (LP)


Þetta hof er uppi í Phousi-fjallinu í Luang Prebang í Laos.


Sonja að versla lítið handsaumað hliðar-veski á kvöldmarkaðnum í Luang Prabang.


Heimsmaðurinn að fá sér ananassafa. Þarna erum við komin til Chiang Mai (CM) í Tælandi og erum stödd á þjóðlegri dans- og söngsýningu.


Tæland er mjög "gay friendly" og þarna erum við á sýningu "lady-boys" sem var ansi flott og skemmtileg. Þetta eru ekki beint klæðskiptingar því flestir þeirra hafa tekið kvenhormón og farið í sílikon en ekki þó allir farið í skurðaðgerðina sem endanlega breytir þeim úr kk í kvk. Þeir eru alltaf klæddir eins og kvk og vilja vera kvk. Þetta eru því heldur ekki hommar og því erfitt að flokka þá, eðlilegast væri að flokka þá sem "þriðja kynið" eða "karlkonur".


Hittum þessar fyrir utan sýninguna.(CM)


Fallegt fiðrildi.(CM)


Fílagarðurinn í Tælandi (Elephant Camp) var ansi skemmtilegur. Fyrst gáfum við fílunum banana, síðan horfðum við á þá baða sig, þá voru þeir með sýningu og að lokum fórum við á bak.(CM)


Gott að komast í bað.


Fórum í klukkustundar reiðtúr á fíl og var helmingurinn á þeirri leið upp á þar sem þeir óðu c.a. 1,5m dýpt.


Þessi sölustúlka var að selja minjagripi í litlu þorpi sem við fórum í og hún kunni sko að selja karlmönnunum. Ég keypti allskonar dót af henni ;-) (CM)


Þessar stúlkur setja þessa hringi á sig í tveimur hlutum, yngri stúlkan er komin með fyrri hlutann á sig en sú eldri er með báða. Þetta lengir ekki hálsinn heldur hindrar eðlilegan vöxt á búk og herðum og er það ástæðan fyrir því að hálsinn virðist langur. Margar ástæður eru taldar fyrir því að þetta er gert, fyrir utan að þetta þyki fallegt og er t.d. nefnt að þetta hindri að villidýr býti þær á háls, ef þær vilji strjúka eru hringirnir teknir af og þá geti þær ekki komist í burtu og auk þess vilji þær enginn o.s.frv.


Eldri kona með stórt gat í eyranu. (CM)


Þessi kona var með kolsvartar tennur eftir að hafa japlað eitthvað svart tóbak alla sína tíð.(CM)


Lítið barn í einu þorpinu.(CM)


Þarna erum við á leið yfir landamærin til Burma og við vorum þar inni í c.a. 2 klst og skoðuðum aðeins borgina (með bílstjóra á tuK-tuK) og markaðinn. Þar keyptum við okkur Discovery dvd pakka með 25 diskum (4 þættir á hverjum) og National geographic einnig með 25 diskum (og 4 þáttum á hverjum), og kostaði það saman 3500 kr.


Á tuk-tuk í Burma.


Þessi strákur var með bróður sinn í aftaná sér og var að betla.(BURMA)


Gullni þríhyrningurinn - þarna erum við í Tælandi, Burma sést til vinstri og Laos til hægri.


Skutumst aðeins til Laos til að kaupa 2 bjóra fyrir Hjölla og þessi börn voru þar við einn skúrinn.


Sölukona sem var að selja fisk.(CM)


Það skall á hellidemba og þessi búddakall er að hlaupa í skjól.(CM)


Ekki beisið plássið sem þessi fjölskylda býr í.(BANGKOK=BK)


Í "sky train" í Bangok en þessar lestar eru í talsverði hæð yfir götum Bangok og eru mjög nýtískulegar.


Þessi búddastytta í Wat Poe í Bangok er um 50 metrar að lengd.


Sölukona á fljótandi markaðnum.(BK)


Ansi mikið af bátum á fljótandi markaðnum en því miður var stór hluti þeirra fullir af bölvuðum túristum veifandi myndavélunum sínum. Við lögðum af stað kl. 5:30 um morguninn og tókum rútu sem var um 2 tíma á leiðinni.(BK)


Bátamaður.(BK)


Eitthvað er þessi stúlka sorgmædd.(BK)


Komin heim eftir frábæra ferð og þarna erum við búin að rífa allt upp úr töskum og mikið drasl eins og sést.


Við þökkum þeim sem lesið hafa blöggin okkar úr ferðinni og vonandi hafa einhverjir haft gaman af.

Jói og Sonja
    
Takk fyrir að hafa skotist til Laos til að kaupa bjórinn handa mér (og bolinn og hrísgrjóna/kóbra-slöngu vínið).
Og takk fyrir allar myndirnar og ferðasögurnar.
Sendirðu ekki slatta af myndunum í Nordic Photo eða hvað það nú heitir?
16:17   Blogger Hjörleifur 

Stórglæsilegar myndir úr ferðinni - þetta hefur greinilega verið frábær ferð og hlakkar mér til að fá ferðasögu og "slideshow".
22:50   Blogger Árni Hr. 

Ég held að þú ættir að athuga stað með myndvarpa þar sem hægt er að sötra bjór og skella myndum upp á vegg. Þarf ekki að vera bar, gæti verið salur eða eitthvað sem hægt er að leigja.
Ég gæti athugað í vinnunni minni hvort þau viti um staði sem hægt er að leigja, þar er alltaf verið að leigja einhverja sali osfrv.
22:55   Blogger Árni Hr. 

Já, það væri sniðugt að finna einhvern góðan stað með góðum myndvarpa og halda þetta þar ... pælum í 'su.
09:59   Blogger Joi 
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar