Að kunna sín takmörk
Fínasta helgi að baki. Á föstudaginn fórum við Sonja með fjölskyldu hennar á Akureyri og var leigt þar heilt raðhús undir fólkið (9 manns). Á laugardaginn var brunað upp í Hlíðarfjall og ég horfði á leikinn í hádeginu og fór síðan aftur upp í fjall. Síðan var borðað á Greifanum og um kvöldið horft á söngvakeppnina og spilað Buzz. Á laugardaginn var síðan skíðað fram eftir degi og farið heim seinnipartinn. Á sunnudaginn var ég að prófa skíði í fyrsta skipti í um 15 ár. Þegar ég var 6-7 ára var ég nokkuð sleipur því ég bjó á Seyðisfirði í eitt ár og var nánast daglega á skíðum um veturinn enda var hann snjóþungur með eindæmum. Ég byrjaði á sunnudaginn í barnabrekkunni enda bjóst ég ekki við að kunna neitt en var nokkuð öruggur bara og fór því í næstu brekku. Ég tók hana jafn létt og greinilegt að þetta er svipað og að hjóla, þ.e. að maður býr að kunnáttunni þó maður stundi þetta ekkert í áratugi. Við fórum því næst í góða brekku sem er með diskalyftu og tók ég hana aftur með trompi, brunaði niður og notaði plóginn þegar þurfti og var ekki einu sinni nálægt því að detta. Við ákváðum því að taka næstu lyftu upp frá þessari lyftu og vorum komin í nokkra hæð þegar þangað var komið. Ég var uppfullur af einhverri ótrúlegri sjálfstrú eftir að hingað til hlutirnir hefðu gengið svona vel og fannst ég ráða við allt og vera konungur fjallsins. Þegar upp var komið renndi ég mér af stað án þess að hugsa um það tvisvar og fór ég strax og mjög mikla ferð enda ansi bratt. Ég setti því í plóginn til þess að minnka aðeins ferðina en hann hafði ekkert að segja, hraðinn jókst bara. Í einhverju stundarbrjálaði ákvað ég því að bruna bara áfram en náði fljótt alveg sóðalegum hraða og ekki séns að nokkur nema atvinnumaður nái að bruna niður allt fjallið. Ég sá því að þetta myndi nú ekki ganga lengi svona og ég væri komin í nokkur vandræði. Ég ákvað því að reyna að sviga aðeins til hliðar, þ.e. að láta annað skíðið til hliðar, sem er jú fyrsta hreyfingin í svighreyfingu - og um leið og ég lét skíðið aðeins til hliðar fór ég í loftköstum niður og var þetta sennilega svipað og þegar maður sér menn detta í bruni á vetrarólympíuleikunum. Skíðin hentust af mér og rann eitthvað niður brekkuna en það að festingarnar virkuðu eins og þær eiga að virka, þ.e. að skórnir fara úr þeim við ákveðið álag varð til þess að ég var ómeiddur en fann fyrir smá verk í annari löppinni og var smá ringlaður í hausnum. Eftir þetta fór ég að hlusta á ráðleggingar Sonju sem er nokkuð vön og hafði líklegast gott að þessari byltu því ég hefði sennilega farið upp á topp á fjallinu og farið að stökkva fram af klettum og það hefði nú endað illa ;-) Ég fór aftur þessa brekku og fór mun varlegra en áður og svigaði niður með stórum ráðherrabeygjum. Við fórum eftir þetta nokkrar ferðir, t.d. í stólalyftuna og datt ég 2-3 í viðbót en bara létt. Fínt að prófa skíði aftur og nokkuð gaman bara enda var alveg logn og heiðskýrt og ekki hægt að fá betra skíðaveður.
|
Já ég sé þig alveg fyrir mér hendast þarna niður með skíðin fljúgandi á eftir þér væntanlega stungist svo sitthvoru megin við þig eftir að þú stöðvaðir. Varstu ekki annars að pæla í því að fara á snjóbretti?
13:47 Hjörleifur
|
|