Mongólía - Tjaldbúðir
Paradís?Partý í tjaldinu hjá fararstjórunum. Við byrjuðum á því að horfa á sólarlagið og Paul fararstjóri sagði að þetta væri fallegasta sjón í heimi og lýsti litunum áður en þeir breyttust og það stóðst allt sem hann sagði. Síðan var farið inn í tjald og drukkið fram eftir nóttu.Við fórum í heimsókn hjá þessu fólki sem við fundum eftir langa göngu á sléttunum og þau gáfu okkur þessar kleinur (eða hvað þetta er) sem er á borðinu.Þegar við Sonja fórum á Síberíulestinni frá Moskvu til Peking síðasta sumar þá fórum við í gegnum Mongólíu. Við vorum 2 eða 3 daga í tjaldbúðum á sléttunum fyrir utan Ulaan Baatar. Það var mjög skemmtileg lífsreynsla að vera þarna útá sléttunum með þennan ótrúlega bláa himinn fyrir ofan sig og endalausar slétturnar undir fótunum. Við gistum í svona tjaldi sem kallast Gert og búa ansi margir Mongólar í svona tjöldum og þá kannski aðallega bændur en einnig fólk í Ulaan Baatar sem er höfuðborgin og ætla ég að ræða um hana í næsta ferðapistli (það er um 60% atvinnuleysi í henni sem mér finnst ansi magnað). Næturnar á þessum tíma eru mjög kaldar og því var ofninn í miðju tjaldinu kynntur seinnipartinn og þá varð tjaldið alveg ótrúlega heitt, eiginlega alltof heitt og síðan kólnaði inni í tjaldinu jafnt og þétt fram undir morgun. Það sem maður gerði sér til dægrastyttingar þarna á svæðinu var að fá sér göngutúr eitthvað út í buskann og jafnvel heilsa upp á bændur. Maður getur gengið að því vísu að þegar maður labbar upp að tjaldi einhverstaðar úti á sléttunum er að fólkið tekur á móti manni og býður manni inn í tjaldið og gefur manni að borða. Það talar náttúrlega ekki ensku þannig að maður tjáir sig bara með því að benda og gefa merki og þetta er ansi merkileg lífsreynsla. Magnað að fá að sjá hvernig fólkið lifir úti á sléttunum og fá að smakka matinn þeirra án þess að það sé að reyna að taka manni pening eða eitthvað slíkt eins og er í mörgum löndum. Í búðunum sem við vorum í var hægt að fara í útreiðatúra og bogakast og síðan var bara málið að slappa af þarna. Paul sagði okkur frá ferð sem ferðaskrifstofan sem hann vinnur hjá er með þarna í Mongolíu sem er mjög öðruvísi: Þessi ferð er í 3 vikur og það fer einn fararstjóri með frá ferðaskrifstofunni (Paul var reyndar hættur sjálfur með ferðirnar sjálfur) og síðan tveir bílstjórar. Farið er á tveimur jeppum og er hámark um 8-12 manns í ferðina ef ég man rétt. Farið er í gegnum Gobi eyðimörkina og sér maður varla annað en sand alla ferðina en einstaka hirðingjar með tjöldin sín verða á leiðinni. Það verða allir að hjálpast að í þessari ferð, skipta um dekk þegar springur, elda, vaska upp, reisa tjöld á kvöldin o.s.frv. Eftir ferðina eru menn oft gjörsamlega breyttir menn eftir þessa miklu reynslu því þetta tekur mikið á og eins þekkist hópurinn eins og systkin eftir þessa nálægð í allan þennan tíma. Paul sagði einmitt að það kannski hljómar ekki spennandi að keyra í gegnum eyðimörk í 3 vikur en þetta er reynsla sem er ansi mögnuð og hann mælti með þessari ferð fyrir þá sem vilja eitthvað öðruvísi. Spurning hvort tippklúbburinn skelli sér í ferðina? Jæja, læt þetta duga í bili.
|
Held eg skelli mer frekar bara a Eurovision :-)
05:27 Hjörleifur
|
|