Kaffi Viktor
Ég og Jói fórum á Kaffi Viktor að horfa á Liverpool vinna Chelsky. Ætluðum reyndar á Gaukinn, en hann virtist bara vera lokaður. Svolítill galli með þennan stað að það eru stórir gluggar þarna og ekki almennileg gluggatjöld, þ.a. að það sést ekkert of vel á tjaldið þegar það er bjart. Maturinn er aftur á móti yfirleitt alveg ágætur, en í þetta skipti fengum við okkur bara franskar kartöflur. Jói fékk sér líka bjór, en ég fékk mér kaffi. Var ég nokkuð ánægður með það að fá stóra kaffikönnu á borðið. En kaffið sjálft var alveg ömurlegt og hef varla fengið verra kaffi á veitingahúsi. Það var svo lafþunnt að það var í rauninni ekkert annað en liturinn sem minnti mann á að þetta væri kaffi. Ég bað því þjónustustúlkunna að taka kaffið og benti henni á að þetta væri svo þunnt að það væri alveg ódrekkandi. Hún kom að vörmu spori með aðra könnu handa mér. Það var aðeins betra, enda heitara kaffi í þeirri könnunni. En það var alveg sama sagan, þetta var svo þunnt að það var eins og það væri hellt upp á handa manni sem finnst mjög þunnt kaffi gott. Ég hef aftur á móti áður fengið mér þarna Kaffi Latte og var það allt í lagi. Það hlýtur eiginlega verið tekið úr annarri vél. Ég drakk semsagt um 2 sopa af nýja kaffinu mínu og pantaði mér svo bara kókglas. Veit ég ekki hvort þau gerðu það viljandi eða ekki, en kaffið var ekki sett á reikninginn þó að ég hafi sagt við þau að ég ætlaði að borga kaffið um leið og ég borgaði kókglasið og franskarnar. Svo ég fékk bara ömurlegt kaffi, en þurfti ekkert að borga fyrir það. Held ég hefði frekar viljað borga fyrir að fá gott kaffi og njóta þess.
|