Hafnarbolti er ótrúlega vinsæll af börnum í Havana og er spilaður nánast á hverju horni í borginni og þá oft notast við tappa o.flr. smádót fyrir bolta og spýtur fyrir kylfur. (Canon EOS 5D - Canon EF 70-200 f/2.8L IS @ 200mm - 1/200s - f/5.0 - ISO 320)Ferðin var mjög viðburðarík og skemmtileg og kem ég til með að setja inn c.a. eina mynd á dag á
joephotos.net úr ferðinni næstu dagana fyrir þá sem hafa áhuga. Eins munum við setja in á SmugMug bestu myndirnar úr ferðinni þegar við erum búin að fara yfir þetta.
Það er mjög sérstakt að koma til Havana að mínu mati - borgin hefur verið stórkostlega falleg fyrir byltinguna fyrir 50-60 árum síðan en er núna í algjörri niðurníðslu. Castro hefur lagt alla peningana í heilbrigðis- og menntamál og er þá ekkert eftir og því hefur nánast ekkert verið gert fyrir borgina síðan byltingin varð. Það sést því mjög mikið á borginni - hús inni á milli hrunin og mörg hús illa farin, sem setur ansi mikinn brag á borgina. Það er ótrúlegt hvað það eru falleg hús þarna í tuga þúsunda mæli sjálfsagt en borgin er ansi stór og mikill íburður hefur verið um hana alla. Eins er gaman að sjá alla gömlu bílana sem eru á götunum en þegar komið er í úthverfi og út fyrir borgina er nánast hver bíll frá fyrri hluta síðustu aldar og setur það skemmtilegan svip á borgina. Í miðbænum eru margar lödur og aðrir nýlegir bílar en það virðist vera minna um það þegar komið er í úthverfi og út á land eins og áður sagði. Eins er mikið líf í borginni og þá sérstaklega seinnipartinn og á kvöldin. Fólk situr í dyragættunum eða í gluggunum og horfir út á götu og fólk að spila eða krakkar í hafnarbolta á götunum, mjög skemmtilegt.
Fólkið þarna er mjög gott og virðist hafa það ágætt þó það hafi ekki meira en í sig og á af því sem það hefur til framfærslu á mánuði. Tvö hagkerfi eru í gangi, þ.e. eitt fyrir Kúbuverja sem nota gjaldmiðilinn Kúbverskir pesóar og síðan er annar fyrir ferðamenn sem nota Kúbverskann dollara (CUC) sem er svipaður í verði og bandarískur dollari. Ferðamenn mega ekki nota (að ég held) Kúbversku pesóana og því eru tvö verð á nánast öllu. Castro setur því verð á allt fyrir ferðamenn en allar búðir og þjónusta er nánast ríkisrekið og ræður hann því þessu algjörlega. Þetta þýðir að það er ekkert ódýrt að vera ferðamaður í Kúbu. T.d. kostar hreinn appelsínusafi 3.5 CUC á hótelinu okkar (sem var reyndar 5 stjörnur) en verð á bjór og slíku var alltaf 1.5 - 3 CUC sem er miklu meira en t.d. í Asíu. Eins er tekin 11% þóknun í hraðbönkum og því að skipta yfir í gjaldmiðilinn og því má segja að allt sé því sem nemur dýrara. Innfæddir Kúbverjar eru flestir með mjög svipuð laun enda er þarna nánast hreinræktað kommúnistakerfi og eru flestir með 10-15 dollara á mánuði, þ.e. sá sem hreinsar göturnar er með nánast sömu laun og kennari eða læknir. Innfæddir geta skipt CUC í sinn gjaldeyri og það gerir það að verkum að þeir eru alltaf að biðja um pening og vilja fá pening fyrir myndatöku o.flr. enda geta þeir verið fljótir að fá inn mánaðarpeninga á tippi og betli þegar munurinn er þetta mikill á gjaldmiðlunum.
Maður fer ekki í neina gourmet ferð til Kúbu því maturinn er oftast mjög vondur þarna - bragðlaus eða bragðvondur og ekki mikið úrval af veitingahúsum þó nokkur séu í miðbænum og á hótelum. Það er þó hægt að fá ágætis mat ef maður leitar aðeins eftir því en mun auðveldara er að fá gott Romm eða vindil.
Che Guevara er algjör hetja á Kúbu og eru myndir og tilvitnanir í hann út um allt en Castro virðist ekkert vera of hrifinn af því að hafa myndir af sjálfum sér sýnilegar, a.m.k. sér maður ekki mikið af því. Eins er Bush og USA ekkert of vel liðinn þarna og eru sumstaðar gagnrýni á þá á plakötum og veggjakroti. Eins er mjög áberandi þarna myndir og upplýsingar um "hetjurnar fimm", t.d. á frímerkinu sem túristar kaupa, sem eru Kúbanskir menn sem sitja núna í fangelsi á Miami vegna ásakana um landráð í Bandaríkjunum eða eitthvað slíkt. Mikill áróður er í gangi um að fá þá heim og að það sé verið að brjóta mannréttindi á þeim í Bandaríkjunum.
Hótelið okkar hét Habana Libre og er 5 stjörnu hótel sem Castro dvaldi á um tíma eftir byltinguna og er bara ágætis hótel - ágæt þjónusta, sundlaug og fínn matur.
Eins og fólk veit eru Bandaríkjamenn með viðskiptabann á Kúbu og mega t.d. Bandarískir ríkisborgarar ekki koma inn í landið og fólk sem lætur stimpla í vegabréfið sitt þegar það kemur eða fer frá Kúbu má ekki koma til USA (eða lenda í miklu vandræðum). Kúba var paradís Bandaríkjamanna fyrir byltinguna (sem var árið 1956 ef ég man rétt) og hafði mafían ansi sterk ítök þarna og því var mikill íburður í borginni. Fidel (aldrei kallaður Castro á Kúbu því að kalla menn með fornafni ber vott um virðingu) og Che stjórnuðu þá uppreisn gegn stjórn Batista og náðu undirtökum í landinu og stofnuðu nýja stjórn og gerði allar eigur Bandaríkjamanna og annarra útlendinga að eign Kúbu og eins allar eigur ríkra Kúbverja að eign ríkisins. Þetta leiddi til þess að Bandaríkin settu viðskiptabann á Kúbu sem er enn við líði. Menn segja að það breytist mikið þegar Castro fellur frá en ég held að USA vilji fá allar eigur sínar aftur sem voru teknar af Kúbu og það gerist varla og því er ekki miklar líkur að samband þjóðanna batni eitthvað eða viðskiptabanninu verði aflétt. Það mun mikið breytast í Havana næstu árin því miklar endurbætur eru hafnar á borginni styrktar af UNESCO og stjórninni og því fer hver að verða síðastur að sjá borgina eins og hún er núna myndi ég halda þó það þurfi sennilega einhver tugir ára til að laga allt ef það verður þá einhverntíman gert. Eins er ferðamannaiðnaðurinn að aukast og því má búast við miklu breytingum.
Við Sonja vorum nokkuð dugleg við það að labba um Havana og þá helst kannski vafasamari hverfin því þar eru skemmtilegustu myndefnin af okkar mati. Eins fórum við einu sinni á frekar óvænta djamm en það er efni í sér blogg og við fórum tvisvar með leigubíl út á land í 5-6 tíma í hvort skipti og þær ferðir eru einnig efni í sér blogg.
Læt þetta dug að sinni og set inn tvær myndir í viðbót úr ferðinni.
Þessi kona sat í dyragættinni hjá sér og var greinilega að safna dósum. (Canon EOS 5D - Canon EF 17-40 f/4.0L @ 24mm - 1/40s - f/5.6 - ISO 125)Dæmigerð gata í Havana - takið eftir því hvað húsin láta á sjá. (Canon EOS 5D - Canon EF 70-200 f/2.8L IS @ 78mm - 1/640s - f/5.6 - ISO 200)