miðvikudagur, maí 17, 2006
|
Skrifa ummæli
England
Jæja, þá er ég sestur við tölvu í fyrsta skipti síðna ég fór til Englands. En förin byrjaði með nokkuð eftirminnilegum hætti. Og hefst nú frásögnin.

Jói skutlaði mér út á völl 3 tímum fyrir flug, því ég var að fara að fljúga með Iceland Express og þar er alltaf svo þröngt og því vildi ég fá sæti fremst í vélinni. Ég fékk sæti 1A og hafði nóg pláss fyrir lappirnar og gott útsýnir og það sat enginn við hliðiná mér. Vélin var aðeins hálf full en sumir í vélinni voru alveg fullir og átti það sérstaklega við nokkra Íslendinga sem voru frá Þórlákshöfn og voru í einhverskonar vinnustaðaferð og ferðuðust eins og alvöru Íslendingar og fengusér nokkra bjóra og létu dólgslega (samt ekkert allir, eiginlega bara einn sem ég held að hafi verið verkstjórinn eða eitthvað svoleiðis). En svona í heildina þá var þetta mjög fín flugferð. Eftir lendingu greip ég töskuna mína, keypti miða í lestina og fór í lyftunni niður á brautarpallinn. Í lyftunni var kona sem heilsaði mér og spurði mig hvort að þetta væri ekki örugglega lyftan í lestina og játti ég því.
Lestin fer með 15 mín. millibili og hoppaði ég upp í 3. vagninn setti töskuna í töskugeymsluna og fékk mér sæti. Stuttu síðar kom konan sem var með mér í lyftunni og settist við hliðina á mér. Við heilsuðumst aftur og hún byrjaði að skoða bækling með lestarkerfi Lundúna. Svo spurði hún mig hvort að þessi lest stoppaði ekki örugglega við Tottenham stöðina og gat ég sagt henni að hún gerði það örugglega, en héldi svo áfram á Liverpool street. Henni létti við það, en hún var á leiðinni að heimsækja vini sína. Hún hét Leila og var frá Eþjópíu en hafði búið á Írlandi síðastliðin 5 ár. Hún giskaði á að ég væri frá Svíþjóð eða Finnlandi en þegar ég sagði henni frá því að ég væri frá Íslandi þá spurði hún mig hvar Ísland væri. Þegar ég sagði henni það þá sá ég að hún var ekkert að koma landinu fyrir sig og reyndi ég ekkert að útskýra það frekar hvar Ísland væri. En hún spurði mig að sjálfsögðu hvort að það væri ekki kalt þar og gat ég sagt henni eins og það var að í rauninni var veðrið þar nú mun betra en hér (11°C, rok og rigning). Hún fór svo úr við Tottenham stöðina og við kvöddumst.

Frá Liverpool stöðinni tók ég leigubíl á hótelið mitt, en það var Travelodge Kings Cross, sem er alveg við Kings Cross lestarstöðina, en þaðan ætlaði ég að taka lestina daginn eftir til Northallerton. Hótelið var alveg ágætt svona miðað við þriggja stjörnu enskt hótel. Ég var kominn upp á hótelið um klukkan 21:30 og byrjaði ég á því að fara út á stöð og kaupa mér lestarmiða. Því miður gat ég ekki keypt miða alla leið því það var verið að vinna við lagfæringar á teinunum milli York og Northallerton. Ekkert við því að gera og keypti ég því miða til York (og með rútu restina). Því næst gekk ég yfir götuna og fékk mér "toasted twister", franskar og gos á KFC. Keypti mér svo Fanta og kex og 1 lítra af vatni og hélt svo aftur upp á hótel og horfði á bíómyndir fram til u.þ.b. 1 um nóttina. Sá m.a. helstu atriði úr bikarúrsleitaleiknum þar sem að Liverpool vann West Ham í vítaspyrnukeppni eftir að hafa verið 2-0 undir og 3-2 en náð að jafna í síðustu mínútu og knýja fram vítaspyrnukeppni þar sem að markvörðurinn fór á kostum og varði 3 spyrnur. Þennan dag var ég í Liverpool bol og tók lest á Liverpool stöðina svo þetta var sannkallaður Liverpool dagur fyrir mig.

Klukkan 3:30 um nóttina byrjaði reykskynjarinn að væla. Ég var rétt kominn í djúpann svefn var ekki alveg að átta mig á hvað ég ætti að gera og byrjaði að athuga hvort ég gæti ekki slökkt á helvítinu, en það var ekki hægt og var alveg vonlaust fyrir mig að reyna að sofna í þessum háfaða svo ég ég klæddi mig, greip veskið og rölti út. Þá sá ég að allir á hótelinu voru að fara út á sama tíma og ég og rölti fólkið í rólegheitum eftir göngunum og horfði á hvort annað, en sagði ekki neitt, enda vissi enginn hvað var í gangi. Svo þegar við komum út var slökkviliðsbíllinn kominn og slökkviliðsmennirnir voru komnir inn.
Það var nú samt ekkert mikill asi á fólkinu og stóðu allir þarna fyrir framan hótelið og voru eiginlega bara að bíða eftir að fá að komast aftur inn. Sumir höfðu ekki alveg búist við því að þurfa að fara út og stóðu þarna út á gangstéttinni berfættir. Sem betur fer var veðrið ágætt og virtist engum vera neitt mjög kalt. Við biðum þarna úti í u.þ.b. 20 mínútur á meðan slökkviliðið kannaðai málið og var okkur svo bara sagt að allt væri í lagi og mættum fara inn. Enginn vissi hvað hafði gerst en voru bara sáttir við að geta farið aftur að sofa.

Þegar ég tékkaði mig út morguninn eftir spurði strákana í afgreiðslunni hvað hefði eiginlega valdið þessu. Einhver bjálfi hafði verið að reykja inn í herberginu í herbergi þar sem að reykingar voru bannaðar. Frekar fúlt, en svona var þetta bara. En þessi gaur hlýtur að hafa verið búinn að reykja mikið, því yfirleitt dugir nú ekki ein sígó til að koma reyksynjara af stað, nema að þetta sé eitthvað næmara á hótelum.

Ég rölti svo á lestarstöðina og fékk mér gott sæti og hélt af stað til York þar sem að Matthew tók svo á móti mér og röltum við um bæinn í smá stund og keyrðum svo til Northallerton.

Á morgunn leggjum svo í hann áleiðis til Grykklands en flugið er á föstudagsmorguninn (eða öllu heldur aðfaranótt föstudags).
    
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar