þriðjudagur, janúar 02, 2007
|
Skrifa ummæli
Kvörtun
Ég reyni nú yfirleitt að vera jákvæður og þegar ég fæ slæma þjónustu á veitingastað reyni ég bara að pæla ekki í því og njóta þess samt að vera úti að borða - þoli ekki þegar fólk þarf alltaf að leita að neikvæðum hlutum við allt og tuða yfir þeim. Ég gat samt ekki annað en verið pirraður þegar við Sonja fórum á Kaffi París í gær til að fá okkur að borða:

Við ætluðum reyndar fyrst á Hornið en það var lokað og einnig grillhúsið sem kom líka til greina þannig að við enduðum á Kaffi París. Við settumst við borð sem var ennþá með einhverju rusli eftir síðustu borðgesti og biðum eftir þjónustu. Eftir dágóðan tíma sótti Sonja sjálf matseðlana því engin kom að afgreiða okkur enda setið á flestum borðum og líklegast mikið að gera. Eftir að við hefðum ákveðið okkur og beðið dágóða stund í viðbót tókst mér loks að kalla til afgreiðslustúlku og hún kom að borðinu til okkar. Stelpan var vægast sagt áhugalaus og var eins og hún væri í einhverjum fílutrans því hún svaraði ekki þegar við pöntuðum heldur skrifaði eitthvað smávegis hjá sér og labbaði í burtu um leið og ég hafði sleppt orðinu án þess að segja nokkuð. Ég var reyndar ekki alveg viss um að hún hafi náð allri pöntuninni og auk þess var ég ekki 100% búinn að ákveða mig og getur vel verið að ég hafi pantað eitthvað meira en hún gaf mér engan séns.
Stelpan kom stuttu síðar með bjór fyrir mig og Pepsi fyrir Sonju og skellti á borðið hjá okkur og var síðan rokin (án þess að taka ruslið sem var fyrir á borðinu en það var reyndar ekkert mjög mikið þannig að það truflaði okkur ekkert það mikið). Sonja reyndar pantaði Kók en ekki pepsi en hún var ekkert að láta vita að það væri ekki til og bara Pepsi en Sonju finnst mikill munur á þessum drykkjum þó að ég geti varla greint þar mun.
Eftir dágóða stund kom maturinn og forrétturinn okkar á sama tíma en við höfðum pantað einn skammt af hvítlauksbrauði í forrétt og hefðum viljað fá það fyrir matinn en það skipti svosem ekki öllu þó að það kæmi á sama tíma og maturinn. Reyndar var ostur á hvítlauksbrauðinu en það kom ekki fram á matseðlinum og er ég ekki viss um að við hefðum pantað það ef við hefðum vitað að það væri ostur á því.
Ég byrjaði síðan að borða Tortillað mitt með nautahakki en það reyndist vera kjúklingur á þessu en ekki nautahakk, áhugalausa afgreiðslustelpan hafði greinilega tekið fram fyrir hendurnar á mér og haft þetta með kjúlla. Þetta skipti mig ekki öllu máli og því ákvað ég bara að borða þetta með kjúlla. Ég pantaði annan bjór um leið og afgreiðslustúlkan (önnur en þessi áhugalausa en þessi afgreiðslustúlka var svipuð og sú fyrri fyrir utan að vera jafnvel enn áhugalausari). Hún muldraði bara eitthvað þegar ég pantaði bjórinn um samþykki um að hún hafi móttekið pöntunina. Þegar ég var búinn með allan matinn minn var bjórinn ekki ennþá kominn og þegar um hálftími var frá því að ég hafi pantað hann sá ég stúlkuna sem ég hafði pantað frá og kallaði hana til mín og spurði: "Pantaði ég ekki bjór hjá þér fyrir c.a. hálftíma síðan?". Hún sagði: "Jú, ég hef gleymt honum." og afsakaði það ekkert frekar. Ég sagði þá við hana að ég vildi ekki fá bjór lengur en hún mætti koma með Esspresso í staðin. Hún muldraði svipaðan hlut og áður og hvarf á braut. Ég beið eftir kaffinu í 20 mínútur en ekki kom það og kallaði ég þá á aðra stúlku og sagðist hafa pantað kaffi fyrir löngu síðan og hún ætlaði að kanna málið. Ég beið aftur í 15 mínútur og þá var mér eiginlega nóg boðið og fór bara að afgreiðsluborðinu og borgaði fyrir matinn. Ég kvartaði yfir þessari þjónustu og borgaði bara 2000 krónur í staðin fyrir 4100 krónur sem þetta átti að kosta - sennilega hefði ég bara átt að sleppa því að borga. Það var athyglisvert að þessar síðustu pantanir mínar á bjór og kaffinu x 2 hafði ekkert ratað á reikninginn og því talaði ég greinilega fyrir tómum eyrum þegar ég var að panta þessa drykki.

Stúlkan sem ég borgaði afsakaði þetta eitthvað með að það væri mikið að gera og slíkt og ég nennti ekkert að tuða meira yfir því. Það er eitt að það sé mikið að gera en að afgreiðslufólk sé svona rosalega dofið og áhugalaust og laust við allt sem heitir þjónustulund finnst mér mjög lélegt.
Skamm Kaffi París - ég ætla ekki að versla við ykkur næstu mánuðina.
    
Hvernig væri að senda framkvæmdastjóra staðarins tengil á þessa síðu? Breytist lítið ef þeir vita ekki af vandanum.
11:19   Anonymous Nafnlaus 

Ég er þegar búinn að því - reyndar sendi ég bara á aðalnetfangið, veit ekki hver les þann tölvupóst.
11:22   Blogger Joi 

Ég hef alveg nákvæmlega sömu sögu að segja frá þessum stað, en þjónustan versnaði til muna eftir útlitsbreytingarnar á staðnum. Hef ég nú aðeins litið við þarna 3-4 sinnum eftir þessar breytingar og í öll skiptin hef ég þurft að bíða mjög lengi til að fá þjónustu (sem gerðist ekki áður) og svo hefur það sem ég hef pantað komið stundum í mjög undarlegri röð. T.d í fyrsta skipti sem ég kom þar inn, þá pantaði ég mér franska súkkulaðiköku og kaffi. Svo beið ég í ca korter og þá kom afgreiðslustúlka til mín og spurði hvort hún gæti aðstoðað mig og ég sagði henni að ég hefði þegar pantað köku og kaffi og hún fór þá strax og sótti kökuna sem var þá búin að standa á afgreiðsluborðinu í þó nokkurntíma og var farin að verða köld. Ég hélt svo að hún kæmi einnig með kaffið svo ég byrjaði ekki alveg strax á kökunni. En nartaði smá í hana enda góð kaka. Svo var kakan búin en ekki fékk ég kaffið fyrr en ég var bara á leiðinni út, ég drakk þá kaffið en það kom ekki á reikninginn sem betur fer. Ég fór ekki aftur á staðinn í nokkra mánuði, en þá gerðist bara það sama. Í rauninni hef ég aldrei fengið þarna góða þjónustu og í rauninni mjög óspennandi staður í dag. Einnig hef ég alltaf fengið að heyra það frá þjónustufólkinu að það sé svo mikið að gera, sem er jú rétt, en það réttlætir ekki að þjónustan eigi að vera léleg.

Kannski ef það væri rukkað fyrir það sem maður borðaði þá væri e.t.v hægt að ráða meiri mannskap í að bera í mann matinn. En ég segi það sama, ég er ekkert á leiðinni á Kaffi París á næstunni.
15:05   Blogger Hjörleifur 
Vikan Jói
 
Vikan Árni
 
Vikan Bjarni
 
Vikan Hjölli
 
Vikan Pálmi
 
Eldri blögg
 
 
 
 
 
 
Myndasíður
 
Tenglar
 
Aðrir blöggarar